Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við þurfum fólk eins og Oddnýju á þing
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 18:00

Við þurfum fólk eins og Oddnýju á þing

- Aðsend grein frá Eysteini Eyjólfssyni

Við Suðurnesjamenn þekkjum farsælan feril Oddnýjar G. Harðardóttur í almannaþjónustu þótt stuttur sé; bæjarstjóri Garðs, fyrst kvenna formaður fjárlaganefndar, þingflokksformaður, fyrst kvenna fjármálaráðherra og formaður Samfylkingarinnar.

Oddný er þó fyrst og síðast þingmaður okkar Suðurnesjamanna sem barist hefur ötullega fyrir Suðurnesin á erfiðum tímum í kjölfar hrunsins til dæmis fyrir fjárveitingum til menntastofnana svæðisins, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum, Fiskvinnsluskólans, Þekkingarseturs Suðurnesja og fyrir fjármagni í rekstrarsamninga til Keilis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Oddný hefur verið eindreginn liðsmaður í varnarbaráttunni fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og vann ötullega að byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Nesvöllum, eitt 13 slíkra sem byggð voru um allt land í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir.

Þá innleiddi Oddný á sínum tíma ný og breytt vinnubrögð í fjárlaganefnd til eflingar vaxtasamninga, menningarsamninga og til atvinnuþróunar hér á svæðinu – sem skilaði sér í auknum framlögum í þessum málaflokkum til Suðurnesja.


Oddný er í hættu á að detta út af þingi – það má ekki gerast!
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Oddný leitt stjórnarandstöðuna í fjárlaganefnd og nýtt hæfileika sína, reynslu og áhrif til þess að minnihluti fjárlaganefndar starfaði sem samhent heild og stundaði harða en ábyrga stjórnarandstöðu, veitti hægri stjórninni nauðsynlegt aðhald.

Oddný hefur verið vakin og sofin yfir málefnum Suðurnesjanna nú sem fyrr og verið iðin við að leggja fram tillögur um málefni svæðisins en vont hefur verið að sjá þær langflestar felldar eða hunsaðar af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Til dæmis tillögur um uppbyggingu heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og uppbyggingu skólastofnana. Tillögu um flutning Landhelgisgæslunnar til Keflavíkurflugvallar, tillögur varðandi uppbyggingu Helguvíkurhafnar og um könnun á kostum þess að flytja innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar - svo eitthvað sé nefnt.

Ferill Oddnýjar talar sínu máli. Hún hefur hiklaust tekist á við hverja áskorun og axlað ábyrgð á verkefnum fyrir samfélagið sem flestir vildu frekar vera lausir við. Hún skarar ekki eld að eigin köku. Hún lætur ekki stjórnast af sérhagsmunum, vina- eða ættartengslum. Hún vinnur í þágu almannahagsmuna – í þágu okkar.
Skoðanakannanir sýna að Oddný er í hættu við að falla af Alþingi og við Suðurnesjamenn þess vegna í stórhættu að missa okkar besta þingmann. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir það er að setja X við S í kosningunum á laugardaginn.


Eysteinn Eyjólfsson
Suðurnesjamaður