Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við þurfum að tala einum rómi
Föstudagur 6. júlí 2018 kl. 06:17

Við þurfum að tala einum rómi

Eigandi þrotabús kísilversins í Helguvík Arion banki, sem hefur það að meginmarkmiði að hámarka arðsemi fjárfesta sinna,  vill nú endurbyggja tuttugu og fimm þúsund tonna kísilver í Helguvík, sem komst að fullu í þeirra eigu eftir gjaldþrot. Ná á fyrirtækið  að heita Stakksberg ehf , áður hér það Sameinað Silikon þar áður hét  United Silicon,  Íslenska Kísilfélagið, og  Tomahawk Development og var að sögn skráð á svonefndan Nasdaq, sem er jú samkomustaður þeirra sem sýsla með háar upphæðir óháð eðli viðskiptanna og bera miklar ábyrgðir,  þar til illa fer.
 
Fulltrúi Arion banka og Stakksbergs. ehf, taldi í síðasta tölublaði Víkurfrétta ástæðu til að „árétta“ að eigendur hafi ekki áform um að stækka verksmiðjuna, heldur fyrst og fremst að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að koma henni í rekstrahæft form. Fulltrúi bankans og Stakkbergs  telur þó ekki ástæðu til að „árétta“ hvers vegna sett hefur verið inn í drögin af frummatsskýrslunni  eftirfarandi setning: Áætluð framleiðslugeta af kísli er óbreytt frá því sem var sett fram í fyrri matsskýrslu, eða 100.000 tonn á ári í fjórum ljósbogaofnum. Hér sannast hið fornkveðna „það verður ekki bæði sleppt og haldið“. Það er mikilvægt að öllum sé ljóst hver tilgangur frumatsskýrslunnar er. Arion banki vill fá leyfi til að lagfæra ónýta verksmiðju svo úr verði söluvara sem unnt verði að stækka og selja, burtséð frá öllum rökum, reynslu, eða vilja bæjarbúa sem hafa munu ferlíkið í bakgarði sínum. 
 
Margar hugmyndir mannsins hafa verið góðar. Hjólið, rafmagnið, ljósaperan og lengi mætti telja. Flestar hugmyndir sem menn hafa með reynslunni lært að nýta samfélaginu til góðs í meginatriðum. Menn hafa líka fengið margskonar hugmyndir sem hafa svo sýnt í ljósi reynslunnar að væru ekki góðar. Ein þeirra var til að mynda óheft brennsla kola til húshitunar, sú hugmynd þykir ekki lengur góð í borgarsamfélagi enda mengun af því fyrirkomulagi mikil. Jafnvel í Kína þar sem sagt er að menn kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum eru viðhorfin orðin önnur og hverju kolaverinu á fætur öðru er lokað í ljósi skaðsemi starfsemi þeirra. Mengun kolareyks og skaðsemi kolareyks verður ekkert minni, jafnvel þó umhverfisvænt  rafmagn sé notað til hjálpar brunanum.
 
Nú þegar hafa verið gefin vilyrði og jafnvel starfsleyfi fyrir rekstri kísilvera sem eiga að geta framleitt allt að tvö hundruð þúsund tonn af kísil í Helguvík, með tilheyrandi mengun . Mannvirkin sem við sjáum nú eru eingöngu einn fjórði af því sem koma skal nái áform fjárfesta Arion banka og annarra eftir. Mengunin sem við fengum að kynnast á síðasta ári var einungis einn áttundi af því sem heimildir eru til. Á einhvern hátt og þrátt fyrir gefin fyrirheit um svo stórfellda uppbyggingu iðjuvera í Helguvík þurfum við íbúar í Reykjanesbæ að koma þeim skilaboðum til stjórnenda Arion banka, Stakkbergs ehf. og annarra fjárfesta sem hyggjast þar reisa stóriðju í bæjarfæti okkar að hugmyndir þeirra séu ekki í samræmi við hugmyndir okkar um framtíðaruppbyggingu í Helguvík.
 
 Við þurfum ekki að svara tilmælum framkvæmdaraðilanna um álit okkar og áherslur í frummatsskýrslu þeirra nú, en við þurfum að búa okkur undir að svara niðurstöðu þeirrar skýrslu kröftuglega þegar kemur að veitingu starfsleyfis hugmyndarinnar. Þá þurfum við að tala einum rómi, og velta því fyrir okkur hvað það er sem við viljum. Viljum við skilja eftir möguleika til framtíðar um uppbyggingu sjálfbærs og heilnæms  samfélags eða viljum loka möguleikum okkar á að byggja hér upp samfélag sem byggir á sjálfbærri stefnu með virðingu fyrir umhverfi okkar og okkur sjálfum. 
 
Með sumarkveðju 
Hannes Friðriksson
íbúi í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024