Við styðjum þig Gunnar
– Guðbrandur Einarsson skrifar
Nú hefur einn frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, Gunnar Þórarinsson, lýst þeirri skoðun sinni að stefnt skuli að ráðningu bæjarstjóra sem ekki kemur úr röðum bæjarfulltrúa, heldur verði staðið faglega að ráðningu bæjarstjóra. Ég vil leyfa mér að fagna því að frambjóðandi úr röðum sjálfstæðismanna skuli stíga fram og lýsa þessari skoðun sinni með svo afgerandi hætti.
Í málefnagrunni nýs framboðs sem stefnir að þátttöku í bæjarstjórnarkosningunum í vor er samsvarandi atriði að finna þ.e að auglýst skuli eftir bæjarstjóra og fagleg sjónarmið ráði því hver verði ráðinn.
Ef að þetta nýja framboð nær árangri í næstu bæjarstjórnarkosningum og ef Gunnar Þórarinsson nær árangri í prófkjöri sjálfstæðismanna þá getum við sameinast um þetta verkefni þvert á flokka.
Það mun marka nýtt upphaf við stjórnun Reykjanesbæjar.
Guðbrandur Einarsson
þátttakandi í undirbúningshópi óflokksbundins
framboðs í Reykjanesbæ