Við söknum ykkar!
Kæru Keflvíkingar!
Þetta sumarið höfum við í knattspyrnudeildinni þurft að berjast í næst efstu deild í fyrsta skipti í 13 ár. Deildin fékk í vor nafnið Inkasso deildin. Þar erum við nú í toppbaráttu ásamt nágrönnum okkar úr Grindavík, Akureyrarliðunum KA og Þór og loks Leikni frá Reykjavík.
Það er erfitt að falla úr deild þeirra bestu og stórt verkefni að takast á við að reyna komast strax aftur upp í Pepsideildina þar sem við eigum sannanlega heima. Leikmenn undir stjórn Þorvalds Örlygssonar hafa nálgast verkefnið með jákvæðu og góðu hugarfari. Við höfum unnið sex leiki, gert 7 jafntefli og aðeins tapað einum leik. Við höfum skorað næst flest mörk í deildinni eða 24 í 14 leikjum. Sem stendur erum við í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig, þremur stigum á eftir Grindavík og fjórum á eftir KA, sem er í efsta sæti.
Við höfum fengið að upplifa sögulegt knattspyrnusumar, þar sem íslenska landsliðið náði stórkostlegum árangri á EM í Frakklandi. Íslendingar sýndu þar allar sýnar bestu hliðar, bæði leikmenn og stuðningsmenn. Tólfan, stuðningsmannafélag íslenska landsliðsins lék stórt hlutverk í Frakklandi. Landsliðið var hvatt áfram af miklum móð svo eftir var tekið af öðrum þjóðum. Uppskeran var væn enda 8 -12.000 Íslendingar á hverjum einasta leik.
Hér í Keflavík er staðan önnur. Á síðasta heimaleik mættu 210 áhorfendur til að fylgjast með leik Keflavíkur og Fjarðarbyggðar.
Keflavíkurliðið hefur heilt yfir spilað mjög góðan fótbolta í sumar. Það vantar enn herslumuninn að komast í annað af tveimur efstu sætunum. Það næst ekki nema með kraftmiklum stuðningi bæjarbúa og stuðningsmanna. Íslenska landsliðið hefði ekki náð langt í Frakklandi ef Íslendingar hefðu ákveðið að sitja heima.
Við erum jafnt og þétt að bæta umgjörðina kringum leikina. Grillum hamborgara og trekkjum í góðan gír fyrir leik. Það er gaman og hefur lagst vel í þá sem hafa verið fastagestir á leikjum okkar í sumar. En við viljum endilega fá fleiri. Fyrir utan það þá sakna leikmenn ykkar. Það er svo miklu skemmtilegra að spila fótbolta með tólfta manninn á hliðarlínunni til að hvetja hina ellefu til dáða.
Næstu tveir leikir okkar eru mjög mikilvægir, en á fimmtudagskvöldið 11. ágúst mætum við Grindavík í Grindavík og topplið KA kemur í heimsókn á Nettóvöllinn þriðjudaginn 16. ágúst.
Hlakka til að sjá ykkur öll þar.
Áfram Keflavík!
Jón Ben
formaður