Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Við skulum samt kjósa
  • Við skulum samt kjósa
    Ellert Grétarsson
Mánudagur 16. nóvember 2015 kl. 13:13

Við skulum samt kjósa

– Ellert Grétarsson skrifar

Í umræðunni um kísilver Thorsil í Helguvík er reynt að telja bæjarbúum í trú um að of seint sé að hætta við, þrátt fyrir að framkvæmdir séu ekki hafnar.  Því er haldið fram að Reykjanesbær sé búinn að skuldbinda sig gagnvart Thorsil í samningum sem löngu sé búið að gera.
Ef það er rétt hefur heldur betur EKKI verið staðið rétt að málum.

Þetta þýðir með öðrum orðum að þessir samningar voru gerðir ÁÐUR en hið lögformlega ferli fór fram. Sumsé – menn sömdu fyrirfram um niðurstöðuna löngu áður en t.d. umhverfismatið var gert og umsagnaferlið fór af stað.


Þannig hefur aðkoma almennings að ferlinu verið algörlega gjaldfelld og að engu gerð.  Svo virðist sem aldrei hafi verið gert ráð fyrir því að bæjarbúar hefðu eitthvað um málið að segja og þó svo yrði var ekki ætlunin að hlusta á þá. Þetta er skelfilega vond stjórnsýsla sem einkennist af yfirgengilegum valdhroka.
Í ofanálag er bæjarbúum sagt að þeir fái náðarsamlegast að kjósa um málið en ekki verði tekið mark á niðurstöðunni, verði hún bæjaryfirvöldum og Thorsil ekki þóknanleg. Það hvernig forsvarsmenn bæjarins og kjörnir bæjarfulltrúar hafa stillt sér upp sem varðhundar  sérhagsmuna  einkafyrirtækis vekur upp ýmsar siðferðilegar spurningar.

Einmitt þess vegna eigum við að taka þátt íbúakosningunni.  Í gegnum hana eigum við að koma þeim skilaboðum á framfæri að við látum okkur svona stórmál varða, hvort sem við erum með eða á móti. Í gegnum íbúakosninguna eigum við að koma því á framfæri að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki boðleg í vestrænu samfélagi árið 2015.

Leynisamningar sem þola ekki dagsljósið

Varðandi áðurnefnda samninga hefur því  jafnframt verið haldið fram að bakki Reykjanesbær út úr málinu sé skaðabótakrafa yfirvofandi.  Báðir samningsaðilar hafa haldið þessu fram.  Þess vegna fór ég fram á það fyrir hönd íbúahóps að fá þessa samninga afhenta með vísan til ákvæða í almennum upplýsingalögum og laga um upplýsingarétt um umhverfismál.  Höfðum við sett okkur í samband við lögfræðing til að fá álit á þessum samningum. Þá bar svo við að okkur  var synjað um þessi gögn.  Þetta eru semsagt leynisamningar.  Í framhaldi af því var þessi synjun kærð  til úrskurðarnefndar um upplýsingamál  og er beðið svara þaðan.

 Á meðan samningsaðilar vilja ekki upplýsa hvað felst í þessum leynisamningum verður að líta á allt tal um yfirvofandi skaðabótaskyldu sem ómerkilegan hræðsluáróður sem ekki er mark takandi á.

Hitt er svo undarlegra að það virðist eingöngu snúa að Reykjanesbæ að standa við sinn hluta samninganna. Thorsil virðist ekki þurfa þess,  heldur er gerður viðauki við viðauka þegar fyrirtækið stendur ekki við sinn hlut, eins og nýlega hefur komið fram í fréttum. Haft er eftir bæjarstjóra í Viðskiptablaðinu að tekjur sem verkefnið átti að skila í bæjarstjóð á þessu ári, koma ekki fyrr en á næsta ári því Thorsil dregur greiðslur.

Og á bara að taka sénsinn?

Talsvert hefur verið fjallað um væntanlega mengun frá fyrirhugaðri kíslmálmverksmiðju Thorsil. Of langt mál væri að rekja það í smáatriðum hér en ágætt er að hafa það í huga að þær kísilmálmverksmiðjur  sem fyrirhugað er að byggja hér á landi munu  losa margfalt meira af koltvísýringi (CO2) út í andrúmsloftið en áliðnaðurinn. Kísilmálmverksmiðjur af þessu tagi hafa verið gerðar hornreka víða annars staðar þar sem þær þykja of miklir mengunarvaldar.  Ísland er eina landið á Vesturlöndum þar sem kísilmálmverksmiðjur hafa fengið leyfi fyrir rekstri á síðustu árum. Og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ vilja ekki bara eina, heldur tvær slíkar örstutt frá íbúabyggð,  eins glórulaust og það hljómar.

Þá skal bent á að viðurkennd er mikil óvissa  í útreikningum er varðar dreifingu útblástursins.  Í því samhengi er rétt að benda á svar höfundar umhverfismatskýrslunnar við fyrirspurn Stefáns Árna Stefánssonar frá síðasta vori og birtist á vef VF en það hljóðar svo orðrétt: „Spurningu þinni um afdráttarlausar upplýsingar um loftgæði í íbúðabyggð í Reykjanesbæ er ekki hægt að svara af mikilli nákvæmni.“

Þá er rétt að benda á niðurstöðu sérfræðiálits sem Skipulagsstofnun fékk frá Háskólanum þar sem segir m.a:  „Með hliðsjón af ÓVISSU í útreikningum og reynslunni frá Grundartanga er rétt að íhuga hvort ekki eigi að sannreyna spárnar með vöktun eftir að rekstur hefst“.

Þarna er beinlínis lagt til að bæjarbúar verði gerðir að tilraunadýrum í lýðheilsutilraun Thorsil og Reykjanesbæjar,  sem virðist til í að taka sénsinn til þess eins að fá einhverja aura  í tóman bæjarsjóðinn.  Viltu verða tilraunadýr í slíkri tilraun? Hver á að njóta vafans?

Atvinna fyrir hverja?
Allt tal um atvinnusköpun í heimabyggð á ekki við í þessu sambandi. Nýlegar fréttir í VF greina frá því að atvinnuástand hér á Suðurnesjum hafi ekki verið betra í 25 ár. Fyrirtæki á svæðinu eru í vandræðum með að fá fólk til starfa og eftirspurnin er mikil. Við blasir að flytja þarf inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að reisa þessa verksmiðju og manna hana þegar hún tekur til starfa. Þetta hefur margoft komið fram í fjölmiðlum undanfarið og þarf ekki að rökræða.  Umræðuna um ofþennslu, ofhitnun hagkerfis og afturhvarf til 2007 er svo hægt að taka á öðrum vettvangi.

Of seint að hætta við?
Nei, ég skal segja ykkur hvenær það verður of seint. Það verður þegar í ljós kemur að mengunin frá verksmiðjunni  var  mun meiri en gert var ráð fyrir í útreikningum sem ekki stóðust. Þegar íbúarnir í norður- og vesturbyggðum Reykjanesbæjar fá vibbann inn um stofugluggann sinn með rýrnandi lífsgæðum og lækkandi fasteignaverði, þá verður of seint í rassinn gripið.  Þegar það kemur í ljós skuluð þið ekki búast við því að verksmiðjan verði svipt starfsleyfi. Málið verður einfaldlega leyst með úfgáfu undanþáguleyfa sem framlengd verða æ ofan í æ. Það er gömul saga og ný.
Tökum ekki þessa áhættu.

Ellert Grétarsson,

íbúi í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024