Við höfum Völlinn!
Það tíðkaðist hér áður fyrr að talað var niður til okkar Suðurnesjamanna er við vildum ná eyrum stjórnvalda með okkar úrlausnarverkefni og sagt að þið hafið Völlinn og síðan skellt á okkur.
Ég fór á Austurvöll í kvöld og skynjaði mikla samkennd og tilfinngaríka reiði fólks um stöðu þjóðfélagsins. Alþingishúsið varð fyrir áras þeirra sem ekki gátu hamið sig og er það miður, hinvegar var trumbuslátturinn magnaður. Núna er kominn sá tími að ekki verður aftur snúið. Fólkið í landinu vill eiga framtíð hérna, ef ekki verður hlustað og framkvæmt samkvæmt trumbuslætti fólksins verður bylting, jafnvel blóðug.
Auðvitað vill maður ekki sjá blóð renna neinsstaðar en slík var tilfinningin á Austurvelli í kvöld að sprengiþráðurinn er einhversstaðar orðinn mjög stuttur.
Þann 7. október ætlum við Suðurnesjamenn að halda opinn borgarafund um okkar helsta kappsmál, atvinnumálin. Ef ekkert kemur út úr þeim fundi af neinu viti langar mig til þess að skora á alla sem vettlingi getað valdið að loka með mér öllum leiðum til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og mæta með kröfuspjöld með sér þar sem á stendur. Við höfum Völlinn.
Baráttukveðja
Tómas J. Knútsson