Aðsent

Við höfum engra sérhagsmuna að gæta
Þriðjudagur 10. maí 2022 kl. 20:37

Við höfum engra sérhagsmuna að gæta

Fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar hér í Suðurnesjabæ eru fjögur framboð sem öll eiga það sameiginlegt, ef mark má taka af málefnalistum framboðanna, að vilja bæta og fegra mannlíf og byggð í bæjarfélaginu, en með nokkuð ólíkri nálgun.

Við jafnaðarmenn sem skipum lista Samfylkingarinnar í Suðurnesjabæ erum vel áttuð um að það þarf öfluga velferð fyrir fólk, þannig að öflugt atvinnulíf nái að blómstra. Að sama skapi þarf heilbrigt atvinnulíf að vera fyrir hendi, til að velferðin blómstri og að íbúarnir fái hennar notið.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þetta samspil er mikilvægt, enda grunntónn í allri nálgun okkar jafnaðarmanna að verkefnin séu til heilla fyrir fólk og til að auka lífsgæði almennings. Mörgum þykir þetta svo sjálfsagt að ekki þurfi að ræða, en samt eru þessi grunngildi í miklu ójafnvægi alltof víða - því miður. Þetta er klassísk jafnaðarstefna og Samfylkingin mun tryggja að hún verði til staðar í Suðurnesjabæ á komandi kjörtímabili, auðnist okkur til þess brautargengi.

Kosningarnar í Suðurnesjabæ snúast um fólk - og þjónustu við það. Þar er kosið um trúverðugleika, traust á frambjóðendum og flokkum í farmboði. En Suðurnesjabær er ekki eyland. Mörg verkefni skarast við þjónustu ríkisvaldsins. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna hefur ekki skilað nægum fjármunum til bæjarfélagsins eins og vera ber til að unnt sé að sinna ýmsum verkefnum. Þar má nefna að engin heilsugæslustöð er í þessu tæplega 4 þús. manna bæjarfélagi sem er einsdæma á landsvísu. Hér er vitlaust gefið. Þarna þarf að gefa í. Það er hægt að gera svo miklu betur.

Ekki ætla ég að rekja öll þau málefni sem við munum slá skjaldborg um, en þau eru mörg og eru aðgengileg í kosningablaði okkar, sem dreift var í hvert hús bæjarfélagsins.

Jafnaðarmenn koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þar eru almannahagsmunir á oddinum. Við höfum engra sérhagsmuna að gæta - við gætum bara hagsmuna venjulegs fólks, fólks sem við viljum þjóna.

Mitt erindi í bæjarmál er einfaldlega það að hjálpa til, leggja mitt af mörkum. Að gera gott bæjarfélag betra. Vinna með sveitungum mínum á lýðræðislegan hátt. Það er nefnilega alltaf hægt að gera miklu betur. Snúum við blaði og hefjum nýja og betri vegferð.

Stöndum vörð um Suðurnesjabæ og íbúa hans. Samfylkingin er tilbúin í verkin. Vertu með okkur jafnaðarmönnum í sókninni! Nú er tækifærið. Breytum og bætum þann 14. maí næstkomandi.

Hér má sjá málefna og viðburðaskrá okkar.

Önundur S. Björnsson.

Höfundur er í 3. Sæti Samfylkingar og óháðum í Suðurnesjabæ.