Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við gefumst aldrei upp þó á móti blási
Miðvikudagur 14. apríl 2021 kl. 17:00

Við gefumst aldrei upp þó á móti blási

Það hefur lengi talist skynsamlegt út frá hagrænu sjónarmiði að bæta í opinberar fjárfestingar þegar um samdrátt er að ræða í samfélaginu og einkaaðilar neyðast til að draga saman seglin.

Að sama skapi ættu stjórnvöld að halda að sér höndum þegar góðæri ríkir, til þess að auka ekki á spennu með tilheyrandi fylgifiskum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú á tímum Covid-samdráttar hefur verið hvatt til þess að opinberir aðilar grípi inn í og auki við sínar fjárfestingar sem gæti þá virkað sem mótvægi gagnvart þeim samdrætti sem þegar er orðinn á almennum markaði.

Reykjanesbær slær ekki af

Þrátt fyrir mikinn samdrátt sem orðið hefur í Reykjanesbæ hefur verið tekin ákvörðun um að draga hvergi úr fjárfestingum sveitarfélagsins og milljarða framkvæmdir fyrirhugaðar.

Nú hyllir undir að nýr gervigrasvöllur ofan Reykjaneshallar verði tilbúinn, unnið er að undirbúningi milljarða framkvæmdar íþróttamannvirkja við Stapaskóla í Innri-Njarðvík, nýtt hverfi, Dalshverfi III, er á teikniborðinu og verður væntanlega tilbúið til úthlutunar síðsumars. Sú framkvæmd mun skapa mikla atvinnumöguleika fyrir minni verktaka hér á svæðinu.

Breytingar á útisvæði sundhallar eru í fullum gangi og unnið hefur verið að lagningu göngu- og hjólastíga í sveitarfélaginu sem bæði hefur verið atvinnuskapandi og um leið aukið möguleika íbúa til útivistar.

Þá hefur sveitarfélagið skuldbundið sig til þátttöku í uppbyggingu hafnarmannvirkja við Njarðvíkurhöfn sem mun skapa fjölda atvinnutækifæra ef af verður.

Á síðasta fundi bæjarráðs var síðan tekin ákvörðun um að bæta 120 milljónum við í viðhald gatna og því verður 250 milljónum varið í þann lið á komandi sumri.

Það er því ljóst að þrátt fyrir erfiða stöðu í augnablikinu mun Reykjanesbær ekki láta sitt eftir liggja til að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélaginu til hagsbóta fyrir íbúa.

Guðbrandur Einarsson,
forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
og oddviti Beinnar leiðar.