Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við erum traustsins verð
Mánudagur 19. júní 2006 kl. 12:53

Við erum traustsins verð

Ég hef oft verið spurður um hverju það skilar að vera þátttakandi í pólitískri ungliðahreyfingu. Er þetta ekki bara þrotlaus vinna sem skilar engu þegar yfirlíkur? Ég er ekki sammála því og vil varpa ljósi á á slíkar hugleiðingar um leið og ég hvet ungt fólk til áhrifa.

Málefnin
Síðustu tvö ár hef ég farið fyrir stjórn Heimis FUS í Reykjanesbæ. Með mér í stjórn er sterkur hópur ungs fólks sem er umhugsað um okkar samfélag og vill gera betur. Við höfum lagt mikið upp úr málefnalegu starfi og hafa félagar fengið tækifæri til að kynna sér alla málaflokka bæjarfélagsins. Við unnum málefnastefnu Heimis í hverjum málaflokki fyrir sig og gátu allir komið sínum hugðarefnum á framfæri.  Einnig stóðum við fyrir stjórnmálaskóla þar sem flestir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins kynntu sinn málaflokk. Skólinn var vel sóttur og þótti takast vel.

Kosningabaráttan
Þegar nær dróg kosningum lögðum við mikið upp úr skemmtilegheitum fyrir ungt fólk. Uppistand, dansleikur, púttmót með eldri borgurum, óvissuferð og fleira skemmtilegt til að hrista saman fólk á ýmsum aldursskeiðum. Tilgangurinn var að vekja athygli á mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fengi tækifæri til að halda áfram sterkri forystu í Reykjanesbæ. Uppákomur okkar voru vel sóttar og þótti mér vænt um hvað ungt fólk var reiðubúið að kynna sér málin og styðja framtíðarsýn Reykjanesbæjar sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram.

Við erum traustsins verð
Þá er komið að uppskerunni. Ungir stóðu sig vel í kosningarbaráttunni og aldrei áður hefur félögum í Heimi verið eins vel launað fyrir störf sín og nú. Sterk staða Heimis skilar sér nú af miklum krafti inn í flestar nefndir og ráð á vegum Reykjanesbæjar. Félagar í Heimi koma að flestum nefndum og ráðum og með þeim hætti mun rödd unga fólksins í bæjarfélaginu heyrast í nær öllum málaflokkum næstu fjögur árin.

Taktu þátt
Með þátttöku í starfi Heimis getur ungt fólk haft áhrif á þróun mála í sínu bæjarfélagi, sama hvort það sé á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, skipulagsmála, fræðslumála, atvinnumála og svo framvegis. Öll höfum við skoðanir á okkar nánasta umhverfi og hvernig við viljum að hlutunum sé háttað. Ég hvet ungt fólk til að kynna sér Heimir, félag ungra sjálfstæðismanna á heimasíðu félagsins www.homer.is  en þar er einnig hægt að skrá sig til leiks og hafa þá um leið áhrif á mótun bæjarfélagsins okkar.

Árni Árnason
Formaður Heimis FUS í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024