Við erum rík þjóð, en erum við of mörg?
Það heyrist oft að við séum rík og ég held að það sé að ýmsu leyti rétt. Við erum í raun fámenn þjóð og vel efnum búin á svo mörgum sviðum og kostir okkar eru margir. Við erum rík að náttúruauðlindum, við erum að upplagi friðsæl þjóð, vel staðsett á jörðinni og almennt eru Íslendingar skynsamir og mörgum góðum kostum búnir.
Við erum líka á margan hátt lánsöm þjóð. Þrátt fyrir að vera bæði rík og lánsöm, þá gengur ekki allt upp hjá okkur. Fjárhagslegu ríkidæmi er misskipt og víða má sjá að græðgin verður aldrei södd. Lán og blessun okkar finnst mér í raun fyrst og fremst felast í því að vera Íslendingar og búa við frið.
Þrátt fyrir góða kosti blasa vandamálin víða við. Það er áhugavert að fylgjast með umræðu og þróun ýmissa mála í okkar góða þjóðfélagi. Vandamálin sem fjölmiðlar fjalla um í fréttum og viðtölum við fólk, nánast á hverjum degi, virðast óteljandi og í sumum tilfellum jafnvel óleysanleg.
Ég hef velt fyrir mér hver rót þeirra vandamála er sem við glímum við og mest er fjallað um og hafa farið vaxandi síðustu ár. Hvað hefur farið úrskeiðis og hafa stjórnvöld á einhvern hátt brugðist okkur landsmönnum?
Mikil íbúafjölgun hér á landi undanfarin ár hefur óhjákvæmilega haft í för með sér röskun og breytingu á aðstæðum af ýmsum toga án þess að ráðist hafi verið í nauðsynlegar aðgerðir til mótvægis.
Eins og meðfylgjandi samantekt sýnir var íbúafjölgun hér á landi í nokkru jafnvægi frá árinu 1942 til 2002. Íbúum fjölgaði eftir síðustu aldamót og á 10 ára tímabili frá árinu 2002 til 2012 fjölgaði þeim um 33.000, eða að meðaltali 3.300 manns á ári. Aftur á 10 ára tímabili, frá 2012 til 2022, varð fjölgunin um 56.675 eða um 5.667 manns á ári. Ef við skoðum hvernig íbúafjölgun hefur þróast síðustu 100 ár og skiptum því í 5 x 20 ára tímabil, þá er niðurstaðan þessi:
1922-1942, fjölgun um 27.205
eða að meðaltali 1.360 á ári
1942-1962, fjölgun um 58.380
eða að meðaltali 2.919 á ári
1962-1982, fjölgun um 51.417
eða að meðaltali 2.572 á ári
1982-2002, fjölgun um 54.393
eða að meðaltali 2.720 á ári
2002-2022, fjölgun um 89.673
eða að meðaltali 4.484 á ári
Við íbúafjölgunina bætist ferðamannastraumur sem fór vaxandi með öflugu markaðsátaki eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010. Með aukinni fjölgun íbúa og ferðamannastraums virðist sem stjórnvöld hafi ekki staðið vaktina nægilega vel. Í vaxandi mæli hefur álag aukist á flesta innviði og þjónustu og í því sambandi nægir að nefna mikið aukið álag á heilbrigðiskerfið. Við munum eftir því að lengi vel var talað um að heilbrigðiskerfi okkar væri eitt það besta í heimi. Nú er svo komið að ekki er hægt að anna þörfum fólks á mörgum sviðum og biðlistar eftir þjónustu hafa aldrei verið lengri. Heilbrigðisstarfsfólk brennur út og flýr úr störfum sínum vegna álags og ástandið fer versnandi. Álag á löggæslufólk eykst stöðugt vegna aukinna og fjölbreyttari vandamála. Glæpatíðni og afbrot hafa aukist og mörg vandamál sem löggæslufólk glímir við tengjast áfengis- og eiturlyfjaneyslu.
Þörf fyrir félagsþjónustu af ýmsu tagi hefur vaxið verulega meðal annars með tilheyrandi kostnaðarauka og álagi fyrir sveitarfélögin og starfsfólk þeirra. Skólakerfið og starfsfólk þess hefur heldur ekki farið varhluta af því álagi sem hratt vaxandi íbúafjölgun hefur í för með sér. Menntastofnanir ná ekki að sinna þörfum námsmanna svo sem varðandi iðnnám o.fl. Fátækt er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu og almannatryggingakerfið sinnir ekki hlutverki sínu gagnvart öryrkjum og mörgum eldri borgurum nægilega vel. Fleira mætti nefna, svo sem húsnæðisskort, sem er orðinn viðvarandi vandamál og engan veginn hefst undan að leysa. Spár gera ráð fyrir umtalsverðri íbúafjölgun næstu ár og spurning hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við því.
Friðsæla landið okkar er að breytast, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Stjórnvöld hafa sofið á verðinum og ekki áttað sig á afleiðingum þess að mikil íbúafjölgun í landinu gerir kröfur um að fjármunum sé ráðstafað í takt við auknar þarfir.
Jón Norðfjörð
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri.