Við erum öll í sama liði
Þegar nýr meirihluti tók við fyrir rúmu ári kom það í hlut Framsóknarflokksins að leiða íþrótta- og tómstundaráð bæjarfélagsins. Meðal verkefna ráðsins var að skoða hvernig nýta mætti íþróttamannvirki bæjarfélagsins betur auk þess að móta tillögur að frekari uppbyggingu og forgangsröðun þessa veigamikla málaflokks. Capacent ráðgjöf vann skýrslu þess efnis fyrir ráðið þar sem meðal annars komu fram tillögur af því hvernig nýta mætti fjármuni sem best við uppbyggingu íþróttamannvirkja og aðstöðu í bænum í takt við þarfir. Það er öllum ljóst að íþróttir skipa stórann sess í bæjarlífi Reykjanesbæjar enda bærinn einna best þekktur fyrir öflugt íþróttastarf í gegnum tíðina. Ég sem oddviti Framsóknarflokksins hér í bæ brenn fyrir íþróttum og þekki vel forvarnargildi þeirra og mikilvægi fyrir börn og fullorðna hér í bæ. Því verður ekki hjá því komist að leiðrétta þann misskilning sem augljóslega hefur skotið rótum gagnvart þeirri vinnu sem stendur yfir.
Þörf forgangsröðun og skynsamleg nýting fjármuna
Bæjarfélagið er að rísa eftir mörg erfið ár þar sem framkvæmdir voru í lágmarki og útsvar í hámarki. Sitt sýnist hverjum um þær aðhaldsaðgerðir en mér er nú full ljóst að þær voru bæði nauðsynlegar og óumflýjanlegar. Í stað þess að horfa í baksýnisspegilinn er því mikilvægt að skoða hvernig best megi koma til móts við þarfir íþróttafélaganna í Reykjanesbæ til framtíðar og móta sameiginlega stefnu sem flestir geta verið sáttir við. Það er óskhyggjan ein að halda að bæjarfélagið hafi ótakmarkaða burði til þess að koma til móts við ítrustu kröfur allra. Reykjanesbær leggur til á ári rúman milljarð króna til íþrótta- og tómstundastarfs hér í bæ og eru þá ekki meðtaldir fjármunir sem sérstaklega fara í uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja s.s. íþróttahúss við Stapaskóla sem sannarlega verður nýtt til íþróttaiðkunar líkt og gert er í öðrum skólaíþróttahúsum bæjarins. Tillögur þær sem ÍT ráð hefur sett fram taka mið af því hvernig best megi nýta fjármuni til málaflokksins og móta drög að sinni sýn á framtíðaruppbyggingu. Þær hugmyndir voru kynntar fyrir formönnum Njarðvíkur og Keflavíkur og ræddar í bæjarráði Reykjanesbæjar sem síðan vísaði þeim til bæjarstjóra til úrvinnslu. Í því fólst meðal annars að fundað væri með félögunum og samráð við þau haft. Sú vinna stendur enn yfir og er það mín von að hægt sé að kostnaðarmeta hugmyndirnar og finna þeim farveg í sem mestri sátt.
Íþróttir eru grasrótarstarf
Í minnisblaði frá fundi íþróttafélaganna með Capacent kemur fram að þeim finnst eins og Reykjanesbær gleymi oft að hugsa um alla sjálfboðaliðana sem vinna óeigingjarnt starf í þágu íþróttafélaganna og að íþróttir séu grasrótarstarf. Fram kemur að íþróttafélögin spyrja sig hvort Reykjanesbær hafi hugsað út í það hvað myndi gerast ef engir sjálfboðaliðar fengjust í vinnu fyrir íþróttafélögin. Ég held að enginn sé að gleyma því í þessari vinnu að íþróttastarf er að mestu unnið í sjálfboðavinnu. Því skal þó haldið til haga að sjálfboðastarf er unnið af fúsum og frjálsum vilja þeirra sem að því koma. Það er á ábyrgð þeirra sem sitja í bæjarstjórn að gæta hagsmuna allra bæjarbúa og tryggja það að bæjarfélagið standist samanburð við það besta sem gerist á landinu. Liður í því er að standa að ábyrgri uppbyggingu íþróttamannvirkja þannig að sem flestir geti tekið þátt og náð árangri.
Við erum öll í sama liðinu
Í minnisblaði frá fundi Capacent með íþóttafélögunum kemur fram ákall þeirra á að sveitarfélagið spýti í lófana. Það er einmitt þess vegna sem þessi vinna var sett í forgang hjá íþrótta- og tómstundaráði. Einnig kom fram að íþróttafélögunum líði eins og sveitarfélagið sé þriðja liðið, þegar við erum í raun öll í þessu saman. Mér þykir miður að íþróttafélögin upplifi bæjarfélagið sem andstæðing á einhvern hátt. Því skal það leiðrétt hér með að bæjarfélagið vinnur að heilindum gagnvart framtíðar uppbyggingu íþróttastarfs í Reykjanesbæ með hagsmuni allra bæjarbúa í huga. Það er mín von að góð samvinna við íþróttafélögin skili góðum árangri og hægt verði að samþykkja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar áform um uppbyggingu og forgangsröðun sem allra fyrst.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ