Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við erum á tímamótum - vinnum saman
Föstudagur 8. nóvember 2013 kl. 09:16

Við erum á tímamótum - vinnum saman

„Viltu vinsamlegast segja mér hvaða leið ég ætti að fara héðan“ spurði Lísa í Undralandi köttinn og hann svaraði „það fer mikið eftir því hvert þú vilt fara“.  „Mér er svo sem alveg sama hvert“ sagði Lísa.  „ Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur.“ sagði kötturinn.

Skýrsla Haraldar L. Haraldssonar sem hann vann fyrir Sandgerðisbæ og Sveitarfélagið Garð og varðar rekstur Garðvangs og öldrunarmál á Suðurnesjum, segir okkur að á vissan hátt höfum við á undanförnum árum verið eins og Lísa í Undralandi, ekki verið viss um hvert við stefndum í hjúkrunar- og öldrunarmálum.  Höfum meira látið hverjum degi nægja sína þjáningu og unnið eftir því sem lífið bauð uppá hverju sinni. Höfum ekki verið með markvissa heildarstefnu eða markmið til að vinna úr.  Það er kannski skýringin á því að við höfum vannýtt Framkvæmdasjóð aldraðra, en þar þarf að leggja fram áætlun áður en lagt er af stað í framkvæmd.

Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin Reykjanesbær, Sandgerði, Garður og Vogar rekið hjúkrunarheimilin Garðvang og Hlévang.  Í Grindavík er hjúkrunarheimilið Víðihlíð rekið af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Við erum núna á tímamótum eða þannig er upplifun mín á stöðu öldrunarmála hér á Suðurnesjum.

Samstaða og samvinna í þessum málaflokki innan Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum virðist vera í uppnámi og er það miður.  Ég tel að þessum málum sé best borgið með samvinnu og framtíðarsýn, með áherslu í samstarfi á  virðingu, traust og náungakærleika.

Hér þarf að horfa á heildarlausnir skoða stöðuna frá öllum sjónarhornum og skoða fleiri en eitt þjónustustig, sem öll skipta máli.   Sem eldri borgari sé ég þessi þjónustustig eins og öryggiskeðju, þar sem hver hlekkur tekur við af öðrum eða tengjast saman, en þessir þættir eru meðal annars: heimaþjónusta, heimahjúkrun, félagsstörf aldraðra, dagdvöl, hvíldarinnlögn, dvalar- og hjúkrunarheimili.  Öll þessi þjónustustig eiga að stuðla að áhyggjulausu ævikvöldi.
 
 En áhyggjulaust ævikvöld er líka í mínum huga að fólk finni sig öruggt og sátt, því sé sýnd virðing, haldi sinni sjálfsvirðingu og sé fjárhagslega sjálfstætt.
Við horfum til þessara ára með eftirvæntingu, ætlum að njóta árangurs ævistarfs okkar, vera örugg með góða þjónustu ef heilsan bilar, en geta annars búið í eigin húsnæði eða í þjónustuíbúð, ferðast og geta glaðst með fjölskyldu og vinum.      
 Hjá þeirri kynslóð sem nú nálgast 100 árin er vandamálið almennt ekki, að eiga eða hafa undir höndum of mikið af peningum.   Með aukinni velmegun, hafa orðið breytingar , fleiri fá nú háar lífeyrisgreiðslur og eru ekki sáttir við að leggja þær allar inn á hjúkrunarheimilið, sem það dvelur á og fá síðan 70 þúsund krónur í vasapeninga,  en fyrir stuttu komu mótmæli í þessa veru fram í fjölmiðlum.

Þetta þarf að ræða, breyttir tímar kalla á umræðu og nýja sýn á málið.  Við höfum m.a. horft til Danmerkur og til hugmyndafræði sem kölluð er Leve og bo.  Heimilisfólkið sem býr á þessum hjúkrunarheimilum, sér að hluta til sjálft um sitt daglega líf.  Fólkið fær greiddan sinn lífeyri og    þarf  því sjálft að sjá um að greiða ákveðið í búsetu, mat, lyf og þrif.  En hér eins og oft vill verða, komu upp vankantar sem vert er að læra af.  Sumir fóru að spara við sig mat og þrif.  Það er því að mörgu að hyggja þegar farið er út í breytingar.

Annað sem tengist hjúkrunarheimilum og finna þarf lausn á, er aukin umræða um að hjón geti búið saman á hjúkrunarheimilunum.  Í dag er rætt um að hjón fái samliggjandi herbergi, ef þau eru bæði metin inn samkvæmt vistunarmati.  
Friðrik J. Jónsson 95 ára frá Kópaskeri, fékk ekki inni með sinni konu á Lögmannshlíð sem er öldrunarheimili, vegna heilsuhreystis.  Hann undi því ekki en fékk innlögn með því að greiða sérstaklega fyrir vistunina.
 
Við gerum meiri kröfur í dag en áður var, eftir langa sambúð eru hjón ekki sátt við að vera aðskilin í lok ævinnar, en lausnina þarf að finna.  Hjúkrunarheimili eru fyrir sjúka aldraða og enn það fá, að þau anna ekki þörfinni.  En mætti hér skoða önnur úrræði eða byggja saman dvalar- og hjúkrunarheimili, þar sem vistunarmat væri annað eða rýmra.
 
Rætt hefur verið um að vistunarmat eða færni og heilsumat eins og það heitir núna, sé of stíft.  Samkvæmt mati þarf fólkið að vera mikið veikt eða ófært um að sjá um sig sjálft, til að það komist inn á hjúkrunarheimilin í dag.

 Einnig hef ég heyrt að það taki langan tíma að fá heilsumat og fólk dregur það að fá mat, því er það spurning hvort skrá um fjölda fólks sem hefur þörf á vistun sé rétt. Einnig mætti  athuga hvort gera þurfi endurmat oftar á hjúkrunarheimilum.
Við höfum því verk að vinna þegar kemur að framtíðarskipulagi, hvað leggjum við áherslu á, hver eru þau markmið sem við viljum setja okkur.  Uppbygging er hafin eins og við sjáum hér á Nesvöllum og er það fyrsta skrefið inn í framtíðina.
                         
Við þurfum að hefjast strax handa með frekari uppbyggingu, kanna hver þörfin er til lengri tíma litið og hvaða þjónustu við viljum sjá.  Ég vil sjá að þar verði horft til þess að byggja upp hjúkrunarheimili þar sem áhersla er lögð á, að auka færni fólks, m.a. með aukinni hreyfingu, sjúkraþjálfun, andlegri örvun og efirlit sé með líðan fólks og lyfjanotkun.
 
Líkt og ávallt hefur verið,  eiga einkunnarorð hvers heimilis að vera virðing, hlýja og kærleiksrík umönnun.  Að vinna á hjúkrunarheimili er ekki allra að takast á við, en þeir sem þessu starfi sinna eiga svo sannarlega þakkir okkar skilið.
                 
Orðrómur hefur verið í gangi um að leggja eigi niður samstarf  Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum, ég vona að sá orðrómur sé ekki réttur, enda er ekki hægt að ganga út úr slíku samstarfi án þess að þar séu hnýttir allir  endar , ekki síðst þegar litið er til fjárhagslegra skuldbindinga.  En verði það niðurstaðan að samstarfinu verði slitið, skora ég á Sandgerðisbæ og Sveitarfélagið Garð að sameinast um rekstur og uppbyggingu öldrunarmála.

Að lokum þetta: Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég tel þessum málum best fyrirkomið með samvinnu bæjarfélaganna á Suðurnesjum, að þau vinni að uppbyggingu, rekstri og þjónustu við eldri borgara á svæðinu.  Ég veit að ætíð þarf að huga að kostnaði bæði við uppbyggingu og rekstur, gæta verði hagkvæmni og tengja þjónustuþætti á sem hagkvæmastan hátt.   Spyrja hvað hentar hverju sveitarfélagi og hvað getum við unnið saman okkur öllum til heilla.

Að standa vel að málefnum aldraðra á að vera keppikefli allra, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Það á að vera jafn sjálfsagt að leggja til uppbyggingar, skipulags og þjónustu til þessara þátta eins og til heilbrigðis- skóla- og íþróttamála, allir þessir þættir skipta hvert samfélag máli.   
 
Við erum á tímamótum, vinnum saman, setjum okkur markmið, verum viss um hvert við viljum stefna og vinnum  ákveðið og markvisst að þeim markmiðum.    

Jórunn Alda Guðmundsdóttir
Varaformaður  FEBS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024