Verum vakandi, ekki loka augunum fyrir þjáningum fólks!
Undanfarin misseri hafa blöðin verið full af allskyns ófögnuði sem flest tengjast ungum einstaklingum, stúlkum og strákum og eru á einn eða annan hátt tengd vímuefnamisnotkun og lýsir því mjög vel hvað mannskepnan getur verið siðblind og ógeðslega veik, vond, skemmd og hættuleg þegar neysla er annars vegar, annars þarf ekki alltaf neyslu til, sumir eru svo andlega veikir að þeir misnota börn/ungt fólk og eru að selja fíkniefni allsgáðir. Ekki má gleyma því að öll eiga þau foreldra, bæði gerendur og þolendur sem líða miklar þjáningar vegna þess sem þau vita eða vita ekki. Að mínu mati eru það veikustu einstaklingar þjóðfélagsins sem hafa það að atvinnu sinni að selja vímuefni (DÓP), þá sérstaklega börnum og unglingum, eyðileggja líf þeirra og annarra, misnota fólk andlega, fjárhagslega, kynferðislega, beita því allskyns þvingunum og hótunum með andlegu og líkamlegu ofbeldi, oft með vopnaburði. Eftir slíkar aðfarir er fólk skelfingu lostið, svo fullt af ótta og kvíða, eru svo andlega og líkamlega brotin að þau geta ekki varið sig á neinn hátt, vilja oft á tíðum einfaldlega ekki vera til. Þetta fólk sem hefur slík völd yfir öðrum, gorta sig svo á því að vera stórmenni, hafa það gott fjárhagslega, veraldlega og eru svo merkileg með sig að ekkert má gera á þeirra hlut án þess að fólk skaðist á því, og nota oftast aðra til að framkvæma verknaðinn. En eins og áður kemur fram eru þetta í raun illa veikir einstaklingar og ættu að líta í eigin barm og leita sér hjálpar sem fyrst.
Sem betur fer er almenningur farinn að sjá þetta meira í réttu ljósi, opna sig betur fyrir því og sjá hvernig komið er, viðurkenna að hafa lent í þessum aðstæðum, þurfi og vilji hjálp til að vinna í sínum málum. Það er líka gott að vita til þess að fólk er einnig meira farið að láta vita af þessum mönnum sem eru að rækta, brugga, selja, nauðga, beita aðra líkamlegu og andlegu ofbeldi hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða, hætt að horfa í hina áttina og láta sem ekkert sé. Að láta sem ekkert sé gerir okkur að þátttakendum, við erum þá samsek, það er einn af þeim hlutum sem lætur okkur líða illa. Við eigum ekki að láta aðra ráða því hvernig okkur líður, en gerum það með því að gera ekki neitt, við eigum betra skilið.
Hér á Suðurnesjum er allt flæðandi í fíkniefnum og öllu ruglinu sem því fylgir, ekki loka augunum fyrir því.
Bæklingur sem Lundur er að gefa út, ætlaður foreldrum til lestrar og fræðslu, verður borinn í öll hús á Suðurnesjum alveg á næstu dögum og vonumst við til að fólk geymi bæklinginn og noti sem handbók.
Lundur er líka að hefja sölu á fiski til styrktar félaginu. Ýsuflök í 1,5 kg pokunm Gengið verður í hús og fólki boðið að panta, sem síðar verður afhent heim að dyrum. Einnig hægt að panta í síma 772-5463.
Erlingur Jónsson
www.lundur.net