Veruleg skerðing á þjónustu við aldraða
Frá Þjónustuhóp aldraðra á Suðurnesjum.
Þjónustuhópur aldraðra á Suðurnesjum bendir á að fyrirhugaður niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun leiða til verulegrar skerðingar á þjónustu við aldraða á útnesjum. Lokun deilda um lengri eða skemmri tíma mun draga mjög úr möguleikum aldraðra til hvíldar og endurhæfingar á stofnuninni og þar með dregur úr félagslegri velferð, auk þess sem öll samhæfing þjónustu verður erfiðari og það mun óhjákvæmilega bitna á heilsufari aldraðra í bráð og lengd.
Nærþjónusta við aldraðra mun skerðast verulega og ljóst er að aldraðir og fjölskyldur þeirra munu í vaxandi mæli þurfa að sækja sér þjónustu til Reykjavíkur með auknum tilkostnaði allra þeirra sem að málum koma. Komi til niðurskurðar er höggvið mjög í sama knérunn en hjúkrunarrými á hvern íbúa 67 ára og eldri eru langfæst á Suðurnesjum borið saman við önnur svæði landsins.
Bryndís Guðbrandsdóttir formaður
Sigurður Árnason
Rannveig Einarsdóttir
Gyða Hjartardóttir