Vertíðaruppgjör og fleira fréttnæmt
Alltaf er maður á einhverju flakki. Nú er ég staddur á stað sem á ekki eina einustu tengingu við sjávarútveg á nokkurn hátt, er nefnilega á Laugarvatni núna, ekki mikil sjómennska í þessum notalega bæ. Já þar með er sú tenging búin. Það er líka annað sem er búið og það er vetrarvertíðin 2019. Þótt hún sé búin þá er ekki þar með sagt að eitthvað hafi slaknað á veiðinni hjá bátunum, nei ekki aldeilis, mokveiði er búin að vera hjá dragnótabátunum.
Sigurfari GK er kominn með 279 tonn í 14 róðrum og mest 41 tonn í löndun. Báturinn hefur verið að landa í Þorlákshöfn upp á síðkastið. Siggi Bjarna GK hefur bara landað í Sandgerði og er kominn með 251 tonn í 14 róðrum og mest 39 tonn sem er fullfermi hjá bátnum.
Benni Sæm GK er með 160 tonn í 12 róðrum og mest 39 tonn og Aðalbjörg RE með 103 tonn í 12 róðrum.
Talandi um Þorlákshöfn þá er netabáturinn Grímsnes GK kominn þangað en báturinn er byrjaður á ufsaveiðum og landar í Þorlákshöfn. Veiðisvæði bátsins er meðfram suðurströndinni á nokkuð löngu svæði, frá Þjórsárósum og alveg austur að Jökulsárlóni. Grímsnes GK hefur landað núna um 46 tonnum í tveimur róðrum og af því er ufsi 36 tonn.
Grímsnes GK er eini netabáturinn á Íslandi sem leggur sig í að veiða ufsa og árið 2018 þá gengu þær veiðar það vel hjá bátnum að báturinn varð aflahæstur allra netabáta á landinu það ár. Reyndar er það nú þannig með þennan bát Grímsnes GK að hann er sá bátur á landinu sem á sér orðið eina lengstu sögu netabáts, því áður en hann varð Grímsnes GK þá var hann gerður út frá Keflavík í mörg ár undir nafninu Happasæll KE, þar á undan hét báturinn Árni Geir KE. Saga bátsins nær 50 ár aftur í tímann og það þýðir að þessi merkilegi bátur tengist því efni sem ég var að búa til.
Þessi bátur Grímsnes GK réri á vertíðinni 2019 en hann var líka að róa á vertíðinni 1969, fyrir 50 árum síðan. Það er nefnilega þannig að síðan árið 2005 þá hef ég skrifað um vetrarvertíðir fyrst í Fiskifréttum í 12 ár en árið 2018 þá gaf ég sjálfur út vertíðaruppgjör í fyrsta skipti og seldi sjálfur. Núna hef ég lokið við að skrifa og prenta vertíðaruppgjörið fyrir vertíðina 2019 og líka 1969.
Báðar þessar vertíðir eru nokkuð merkilegar en þó er kannski aðallega vertíðin árið 1969, sem er merkilegasta vertíðin í langri sögu útgerðar á Íslandi en þetta var vertíðin sem eikarbáturinn Sæbjörg VE náði þeim ótrúlega árangri að verða aflahæstur allra báta á Íslandi eftir ævintýralega veiði í mars og apríl árið 1969. Þessi 67 tonna bátur var þá í harðri keppni við 220 tonna stálbát frá Grindavík sem hét Albert GK, og hann eins og Sæbjörg VE voru í ævintýralegri veiði í bæði mars og apríl.
Vertíðaruppgjörið 2019 og 1969 segir nánar frá þessu ásamt því að birta lista yfir alla þá báta sem yfir 400 tonn náðu á báðum vertíðum. Myndir eru í ritinu bæði frá 2019 og líka frá þessu ævintýri 1969.
Þið getið pantað þetta rit í síma 7743616, (Hrefna svarar því), eða sent skilaboð á facebok Gísli Reynisson eða netpóst á [email protected]. Ritið er um 40 blaðsíður og kostar 4.000 krónur.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is