Verkin tala sínu máli
Ólafur Þór Ólafsson skrifar.
Síðustu fjögur ár hafa verið tímabil tiltektar í rekstri Sandgerðisbæjar. Það var ljóst strax í upphafi kjörtímabilsins að það væri snúið verkefni framundan og erfiðar ákvarðanir sem þyrfti að taka. Við á S-listanum tókumst á við verkefnið af ábyrgð og raunsæi enda vopnuð óbilandi trú á samfélagið okkar í Sandgerði.
Reynt að slá ryki í augu kjósenda
Um daginn birtist grein eftir oddvita eins framboðsins í Sandgerði þar sem reynt var að gera lítið úr verkum okkar sem leitt höfum starf bæjarstjórnar og í raun allra þeirra sem stýrt hafa málum hjá Sandgerðisbæ. Slíkri gagnrýni vísa ég til föðurhúsanna enda farið nokkuð frjálslega með staðreyndir og þarf ekki annað en að skoða bókun S-listans í bæjarstjórn hálfum mánuði fyrir kosningar 2010 til að sjá að fólk vissi hvaða verkefni biðu nýrrar bæjarstjórnar á þeim tímapunkti.
Mikið vatn runnið til sjávar
Það sýndi sig líka fyrir fjórum árum að fólk hafði trú á S-listanum til að takast á við erfiða stöðu enda fékk hann hreinan meirihluta í kosningum þá. Staða Sandgerðisbæjar í dag sýnir jafnframt að S-listinn hefur staðið undir því trausti sem á hann var lagt vorið 2010. Ég er stoltur af þeirri vinnu sem hefur farið fram hjá Sandgerðisbæ undir forystu okkar á S-listanum og þar er ég ekki bara að tala um fjárhagslega endurskipulagningu heldur get ég líka nefnt atriði eins og endurskipulagningu á starfsemi Sandgerðishafnar, breytingar á fyrirkomulagi leikskólamála, stofnun Þekkingarseturs Suðurnesja, nýja skólastefnu, aukið öryggi í brunavörnum, öflugra upplýsingaflæði, stofnun ungmennaráðs, uppkaup eigna frá Eignarhaldsfélaginu Fasteign, mikilvægan stuðning við íþrótta- og tómstundastarf ungmenna og loksins sér fyrir endann á framkvæmdum vegna frárennslis frá Sandgerði.
Fylgjum eftir góðum árangri
Það verður hins vegar ekki kosið um fortíðina heldur framtíðina í kosningunum næsta laugardag. Það verður ekki kosið um það hvað menn gerðu og sögðu fyrir þremur eða fjórum árum heldur mun fólk velja þá fulltrúa sem það hefur trú á að geri Sandgerði að enn öflugra samfélagi á næstu árum. Þar tel ég að S-listinn standi vel að vígi enda skipaður kraftmiklu fólki sem hefur sett saman raunhæfa stefnuskrá sem ber þess glöggt merki að tímabil uppbyggingar er framundan í Sandgerði. Við höfum sýnt að við getum tekist á við erfið verkefni með góðum árangri og höfum styrkinn sem þarf til að stýra samfélagi í sókn.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar
og skipar 1. sæti S-lista Samfylkingar og óháðra borgara í Sandgerði.