Verkefnin framundan
Efnahagsmálin eru mál málanna í dag. Verkefnið sem blasir við er að koma efnahagslífi landsins aftur á réttan kjöl. Tekjutap ríkisins vegna efnahagshrunsins er mikið en við stöndum á styrkum stoðum sem við munum byggja á til framtíðar. Mikilvægt er að áfram verði byggt á þeirri stefnu að einstaklingarnir fái notið afraksturs eigin verka. Næstu mánuðir verða án efa erfiðir en Íslendingar eru öflugir baráttumenn sem munu í sameiningu komast yfir þennan hjalla. Við þurfum hins vegar að eyða þeirri óvissu sem ríkir um framtíðina, setja fram skýra stefnu um hvert skal sigla skútunni, leggjast svo á árarnar og einbeita okkur að því sem skiptir máli.
Endurreisnaráætlun
Þegar lagt er af stað í langferð er rétt að skipta ferðinni upp í smærri áfanga. Því tel ég nauðsynlegt að leggja fram endurreisnaráætlun fyrir Ísland til næstu 18 mánaða þar sem sett verði fram skýr og tímasett markmið. Að þeim tíma loknum verði unnið eftir framtíðarsýn sem byggi á þeim grunngildum sem koma Íslandi best til langframa. Í endurreisnaráætluninni verði settar fram lausnir á því hvernig endurreisn bankanna verði háttað, hvernig lækkun stýrivaxta og verðbólgu verði náð, hvernig verði staðið að niðurskurði hjá hinu opinbera og hvernig verði forgangsraðað í því verkefni, til hvaða að gerða verði gripið til að sporna gegn atvinnuleysi og hvernig upplýsingagjöf til almennings um framvindu áætlunarinnar verði háttað.
Sterkar stoðir
Þrátt fyrir ástand efnahagsmála byggir samfélagið okkar á traustum stoðum. Menntunarstig er hátt, tækifæri í orkumálum eru gríðarleg. Öflugur sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður er enn til staðar í landinu. Lífeyrissjóðakerfið okkar tekur nú á sig áfall en verður engu að síður áfram öflugra en víðast hvar annars staðar. Það eðli Íslendinga að bjarga sér sjálfir, vinna mikið og áberandi hugmyndaaugi er auðlind sem þarf að nýta. Á þessum stoðum munum við byggja okkar framtíð.
Mín framtíðarsýn
Ísland framtíðarinnar verður land þar sem einstaklingarnir fá notið ávaxta eigin verka. Þar sem auðlindir þjóðarinnar verða nýttar á skynsamlegan hátt til að auka lífsgæði íbúanna. Atvinnulífinu verði sköpuð þau skilyrði að fyrirtækin nái að þróast og starfa í skýru og einföldu umhverfi. Afskipti ríkisins af rekri fyrirtækja og lífi borgaranna verða lágmörkuð og virðing verður borin fyrir mannréttindum einstaklinganna. Lífsgæði á Íslandi verða einhver þau bestu í heimi.
Í hnotskurn
Í dag skiptir mestu máli að eyða þeirri óvissu sem ríkir um framtíðina. Því miður hefur umræðan í fjölmiðlum og hjá vinstri flokkunum aðallega snúist um allt önnur mál. Nú er ekki tíminn til að ræða um grundvallarbreytingar á stjórnskipan landsins, aðild að ESB, persónukjör og pólitískar hreinsanir í embættismannakerfinu. Tölum skýrt, eyðum óvissu, einbeitum okkur að þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja og stefnum hátt með grunngildi Sjálfstæðisstefnunnar að leiðarljósi.
Unnur Brá Konráðsdóttir
er sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og gefur kost á sér í 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi