Verjum velferð barnanna okkar
Í ný samþykktri fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er gert ráð fyrir miklum niðurskurði í rekstri sveitarfélagsins og er grunnþjónustu sveitarfélagsins hvergi hlíft. M.a. á að spara 34 mkr. í rekstri Frístundaskólans.
Sem dæmi um afleiðingar niðurskurðar til Frístundaskólans má nefna eftirfarandi:
• Frístundagjald á mánuði hækkar úr 9.150 kr. í 14.400 kr. eða um 57%
• Ekki verður lengur innifalið í frístundagjaldi æfingagjald fyrir eina íþrótt
• Allur akstur barna í íþróttir fellur niður
Augljóst er að þessi hækkun og niðurfelling á æfingagjaldi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir mörg börn. Margar fjölskyldur eru illa staddar fjárhagslega af ýmsum ástæðum; s.s. atvinnumissi, verðbólgu, gengisfalli íslensku krónunnar o.s.frv.
Það liggur fyrir að þessar skerðingar koma verst niður á þeim sem síst skyldi, æsku þessa samfélags og má búast við að mörg börn hætti í Frístundaskólanum og hætti jafnvel að stunda íþróttir með ófyrirséðum afleiðingum.
188 mkr. tekjumöguleikar ekki nýttir
Á sama tíma er útsvar sveitarfélagsins ekki hækkað en miðað við grófa útreikninga mætti auka tekjur um 188 mkr. Auk þess fengist meira fjarmagn frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga ef útsvarið er hækkað. Þessar tekjur mætti nota til að standa vörð um velferðar- og grunnþjónustu sveitarfélagsins í ríkara mæli.
Hækkum útsvarið
Með hækkun útsvarsins mun tekjur sveitarfélagsins aukast um rúmar 188 mkr. sem hægt væri að ráðstafa í velferða- og grunnþjónustu sveitarfélagsins. Hér er því um gullið tækifæri að ræða til að jafna lífskjör fjölskyldna í okkar samfélagi sem við megum ekki láta framhjá okkur fara.
Ég mun sem bæjarfulltrúi í þessu sveitarfélagi leggja til í bæjarráði Reykjanesbæjar að útsvarið verði hækkað úr 12,7% í 13,28% og tekjurnar verði notaðar eingöngu til að styrkja velferð íbúanna og efla þjónustu við barnafólk í þessu sveitarfélagi.
Laun undir 300 þkr. á mánuði finna lítið fyrir hækkun útsvars
Miðað við að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gangi eftir og persónuafsláttur hækki um ca. 20% þá mun útsvarshækkun úr 12,7% í 13,28% ekki hafa mikil áhrif á laun undir 300 þ.kr. á mánuði nema að litlu leiti. Einungis þeir sem eru með hærri mánaðartekjur munu finna fyrir slíkri útsvarshækkun.
Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ
A-listinn