Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Verða Nesvellir í Reykjanesbæ – deild á Hrafnistu í Reykjavík ?
Miðvikudagur 13. nóvember 2013 kl. 12:46

Verða Nesvellir í Reykjanesbæ – deild á Hrafnistu í Reykjavík ?

Því miður er það víst staðreynd að samningur Reykjanesbæjar við Hrafnistu um rekstur Nesvalla - nýja hjúkrunarheimilsins sem verið er að byggja hér í Reykjanesbæ - var samþykktur á aukafundi í bæjarstjórn Reykjanebæjar nú síðdegis 12. nóvember.

Áskoranir sem bæjarbúar undirrituðu gegn afgreiðslu samningsins - ályktun fundar um sama efni voru sendar bæjarstjórn - endregin áskorun frá minnihluta bæjarstjórnar um frestun afgreiðslu lögð fram á fundinum. ALLT KOM FYRIR EKKI.

Það er háalvarlegt mál á margan hátt að útvista þannig hluta heilbrigðismála héðan af Suðurnesjum. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja HSS hefur á undanförnum árum verið mikið skorið niður og þjónusta lögð af. Fæðingardeild og skurðstofum hefur verið lokað. Þessi samningur mun þýða að 18 hjúkrunarrýmum á HSS verður lokað og starfsfólki sagt upp. Hugmyndir stjórnenda/starfsmanna HSS voru þær að nýta þessi 18 rými fyrir hvíldarinnlagnir aldrarða - ef tímabundin sjúkrahúsvist er nauðsynleg af einhverjum ástæðum t. d. þegar endurskoða þarf lyfjamál og fleira. Hvert verður leitað með þá þjónustu þegar samningur við Hrafnistu tekur gildi ?

Verður matur keyrður frá Reykjavík eða Hafnarfirði til heimilsfólks á Nesvöllum ? Hvar verður þvotturinn þveginn ? Ótal spurningar vakna og of langt mál að setja þær allar hér inn.

Starfsemi HSS mun dragast enn frekar saman, sem getur til framtíðar þýtt lakari þjónustu við ALLA aldurshópa hér á svæðinu. Auk þess munu störf yfir/millistjórnenda flytjast héðan af svæðinu. Það er með öllu óskiljanlegt að ekki hafi verið leitað samninga við HSS um rekstur Nesvalla. Aðeins leitað eftir tillögum sem ekki var svo unnið með áfram. Hrafnista er fyrirmyndarstofnun sem ekki er verið með neinum hætti að kasta rýrð á. Að ganga til samninga við einn aðila utan svæðis og gefa HSS ekki tækifæri til að koma að samningaborðinu, eru að mínu áliti forkastanleg vinnubrögð. Hefðu samningar við HSS hins vegar ekki náðst eða verið með öllu óásættanlegir - hefði samningaumleitanir við Hrafnistu í framhaldinu verið skiljanlegar.

Sveitarfélögin hér á Suðurnesjum hafa - að mér skilst verið mis samstíga um ýmis mál undanfarin ár. Ákveðin samvinna hefur þó verið um dvalarheimili fyrir aldraða á svæðinu. Hvers vegna koma sveitarfélögin ekki að þessu máli sameiginlega og hvað segir Verkalýðs og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis um fækkun starfa ?

Skora á Suðurnesjamenn að mæta á íbúafundinn um málið á Nesvöllum miðvikudaginn 20. nóv. n. k. og leita svara við spurningum sem á þeim brenna um málið.

Hólmfríður Bjarnadóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024