Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 16. janúar 2004 kl. 14:23

Velkomin í ríki mitt, Reykjanesbæ!

Þegar ég var að fletta nýjasta tölublaði Víkurfrétta dags. 15. janúar 2004 rak ég augun í að enn frekari endurbætur á Hafnargötu væru byrjaðar. Lengi lifi endurbætur við Hafnargötu, verkefni sem sífellt fer í endurnýjun lífdaga sinna.
Á blaðsíðu 14 og 15 þjarka bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins um afsökunarbeiðni og í grein bæjarstjóra segir:
“Staðreyndin er sú að í lok nýliðins árs numu eignir Reykjanesbæjar tæplega ellefu þúsund milljónum kr.” 
Þessi talnaleikur sem er að ryðja sér til rúms í dag virðist vera af þeirri rót að leiðbeina fólki sem þekkir ekki mun á milljón og heilum milljarði.  Þó ég hafi aldrei handleikið milljarð í peningum er ég samt steinhættur að fara út í búð og kaupa fyrir tíu hundruð krónur í matinn.  Ég kaupi bara fyrir þúsundkall og læt það gott heita. 

Framkvæmdirnar í Helguvík halda áfram, mulið niður bergið, vörubílar bruna um götur bæjarins og sturta á haf út meðfram standlengjunni því eina felli eða fjalli sem Reykjanesbær getur státað af.  Þetta kostar sitt það máttu bóka. Þetta kostar sitt!  “Af hverju fylla þeir ekki á haf út í Helguvík í stað þess að grafa sig svona inn í landið” spurði mig einhver sem að var ekki alveg viss um hvort hann skyldi allt rétt  en lítið varð um svör.
Á blaðsíðu 20 má lesa um málefni leikskólanna. Þar segir í grein Hafdísar Helgu Þorvaldsdóttur að hækkun á leikskólagjöldum sé á bilinu 23-26%. En Böðvar Jónsson á líka sína skýringu “hlutfall foreldra hefur lækkað úr 50% í 35%.”  Samkvæmt ofanrituðu geta gjöld lækkað á sama tíma og þau eru hækkuð og átt sér ósköp skiljanlegar ástæður.  En fólkið hefur auðvitað þessum aurunum minna til ráðstöfunar þar á eftir.  Ég er þannig innréttaður, að vísu ódýrt á efri hæðinni, að hver hækkun kostnaðar á almenning vekur með mér kenndir til þeirra sem verst eru settir.  Atvinnuleysi og kostnaðarauki fer illa saman, að mínu viti.  Það er þekkt staðreynd.  En það er ekki bæði hægt að halda og sleppa.  Það verður að forgangsraða! Ef við viljum munað og glys þá kostar það peninga og einhver verður að borga,  þú eða ég.  Því má líkja stjórn byggðarlags við fjármál og stjórn heimilis:
Þó sjónvarpstækið sé í tíma og ótíma að slökkva á sér, látum við endurnýjun þess bíða ef barninu okkar vantar peysu til að klæðast gegn kuldanum hér úti. Svo einfalt er það.
Sú frétt sem vakti hvað mesta athygli mína og ég var viss um að væri í Víkurfréttum, reyndist vera í Morgunblaðinu, hálfsíðu umfjöllun:  “Hollywood-stafir settir á Vogastapa.” Í fréttinni segir að um sé að ræða rúmlega mannhæðarháa stafi og á ljósmyndunum má sjá að hver stafur er á annan metra á breidd.  Saman mynda þeir orðið “Reykjanesbær”. Þessi risavöxnu herlegheit eiga auðvitað að vera upplýst, hvað annað?  Hér á því hvorki að vera hægt að finna volæði, peningaþröng eða atvinnuleysi, þegar komið er inn fyrir bæjarmörkin, meira en nóg til af öllu fyrir alla skyldi maður ætla. 
Því datt mér í hug, í ljósi þessarar velmegunar sem mér var annars ókunnugt um, hvort meirihlutinn í stjórn bæjarins gæti ekki að láta útbúa annað svona skilti og sett niður á sama stað, því oft má gott bæta.  Á 90 km. hraða eftir Reykjanesbrautinni rynnu þá skiltin í eitt og mörkuðu ekki aðeins upphafið af ljósadýrðinni og fagurskreytingunum inn í bæinn heldur og segðu það sem menn vildu meina: “Velkomin í ríki mitt, Reykjanesbæ!” 
                                                             
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024