Veljum Ragnheiði Elínu í fyrsta sætið
Ágætu Suðurnesjamenn
Á laugardaginn kemur fer fram prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Mikilvægt er að fá góða þátttöku í prófkjörinu þar sem efstu frambjóðendur flokksins fyrir næstu alþingiskosningar verða valdir.
Í framboði eru 17 góðir og hæfir einstaklingar sem endurspegla hið víðfeðma kjördæmi auk þess þar er að finna bæði konur og karla, ungt fólk með nýjar og ferskar hugmyndir sem og eldri og reynslumeiri einstaklinga.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af fengið mestan stuðning þeirra flokka sem boðið hafa fram til alþingis og þar með leitt eða tekið þátt í ríkisstjórn stærstan hluta lýðveldistímabilsins.
Við val á forystumönnum í hverju kjördæmi er því mikilvægt að þar sitji einstaklingar sem eiga raunhæfa möguleika á að taka sæti í ríkisstjórn að afloknum kosningum.
Í prófkjörinu á laugardag eru 3 einstaklingar sem sérstaklega stefna á 1.sætið. Af þeim er að mínu mati aðeins einn frambjóðandi sem kemur til álita sem ráðherra í næstu ríkisstjórn, fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn verði við ríkisstjórnarborðið.
Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur á síðustu árum hlotið gríðarlega reynslu af störfum stjórnarráðsins sem aðstoðarmaður ráðherra til 10 ára og nú síðustu ár sem alþingismaður. Hún hefur á starfsferli sínum gegnt fjölmörgum mikilvægum störfum fyrir land og þjóð og sýnt í þeim verkum að hún hefur kjark, áræðni og þor til þess að ýta málum af stað og fylgja þeim eftir þar til landi er náð.
Um leið og ég hvet alla Sjálfstæðismenn á Suðurnesjum til þess að taka þátt í prófkjöri flokksins á laugardaginn skora ég á fólk að fylkja liði um Ragnheiði Elínu í fyrsta sæti listans.
Böðvar Jónsson
Höfundur er bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ