Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Veljum konur í forystusætin
Mánudagur 24. febrúar 2014 kl. 14:07

Veljum konur í forystusætin

Fjölmargar mætar konur bjóða sig nú fram til að taka sæti á framboðlistum Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Öll hljótum við að vera sammála um að sá hópur sem valinn verður til forystu þarf að endurspegla samfélagið sem við búum í til þess að þjóna því sem allra best. 

Konur eru helmingur þjóðarinnar.  Það er því mikilvægt að þær komi að ákvörðunum og stefnumótun í sveitarstjórnum í forystusætum listanna eins og karlar. Konur búa einnig yfir gríðarlegri reynslu, þekkingu og menntun, sem samfélagið hefur einfaldlega ekki efni á að nýta ekki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sóknarfæri með konum
Við sjálfstæðisfólk höfum mikið rætt það undanfarið hvernig við getum eflt og styrkt flokkinn okkar, hvernig við náum til fleiri kjósenda og þannig tryggt að stefna Sjálfstæðisflokksins verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir í sveitarstjórnum.  Stærsta sóknarfærið er  að kjósa konur. Með því að fleiri konur verði í áhrifastöðum í stjórnmálum og forystusætum framboðslista eru meiri líkur á því að stefna Sjálfstæðisflokksins höfði til beggja kynja. Þannig sýnum við í verki breiddina í Sjálfstæðisflokknum, sem er flokkur allra stétta, flokkur karla og kvenna.  


Þátttaka beggja kynja skilar betri árangri
Nú er ég ekki að halda því fram að konur séu gáfaðri, sterkari, hugmyndaríkari eða ábyrgari en karlar – heldur að þær eru engu síðri.  Því ætti ekki að vera nein ástæða til þess að kjósa þær ekki, heldur fagna fjölbreytninni og því að konur og karlar nálgast verkefnin á ólíkan hátt en þannig verði betri niðurstaða með þátttöku beggja kynja.  Að greiða atkvæði í prófkjöri er mikil ábyrgð, atkvæðið er yfirlýsing um það hverjum við treystum best til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins.  Atkvæði okkar ræður úrslitum um það hversu sigurstranglegur listi flokksinns verður í kosningunum í vor.  Með því að raða í forystusæti – bæði körlum og konum – tryggjum við fjölbreytni, trúverðugleika og öflugan Sjálfstæðisflokk í sveitarstjórnum á næsta kjörtímabili.


Þórey Vilhjálmsdóttir,
formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna