Veljum að búa á Íslandi
Það var engin spurning í mínum huga að kosningaferðalag mitt átti að hefjast í Grindavík og stuttu síðar heimsótti ég Reykjanesbæ. Það fer ekki á milli mála að það býr kraftur í þessum byggðarlögum sem áður byggðu afkomu sína að mestu á sjósókn en stunda nú fjölbreytta atvinnustarfsemi, allt frá ferðaþjónustu til tækniþróunar af ýmsum toga.
Ég verð mjög víða vör við jákvæð áhrif uppbyggingar en ég hef líka heyrt á fólki að það er orðið langþreytt á neikvæðni og sundrung og margir telja traust brotið. Þegar efnahagslífið hrundi töpuðust ekki einungis efnisleg verðmæti, samfélagssáttmálinn hrundi í leiðinni. Að mörgu leyti hefur gengið ágætlega að koma efnahagslegum þáttum í samt lag, en vinnan við að græða samfélagssárið er bara rétt að hefjast.
Forsetaembættið getur gegnt mikilvægu hlutverki við að leiða samtal um framtíðarsýn Íslands, hvernig samfélagsgerð við viljum byggja upp og standa vörð um og hvaða gildi við ætlum að hafa að leiðarljósi. Heiðarleiki, virðing, réttlæti og jafnrétti eru gildi sem þjóðin valdi sér árið 2009. Við þurfum að tala miklu meira um þessi gildi og við þurfum að sýna þau í verki í daglegum athöfnum. Þannig getum við byggt samfélagssáttmálann upp og aukið sátt í samfélaginu á ný, þannig getum við grætt sárin og byrjað að skapa aftur traust.
Ég hef vaxandi áhyggjur af misskiptingu í landinu, milli þeirra sem eiga mikla fjármuni og litla, milli ólíkra landshluta og misskiptingu tengda uppruna. Ég trúi á jafnrétti fyrir alla. Það Ísland sem ég ólst upp í einkenndist af meira jafnræði. Almennt séð hafði fólk minna af efnislegum gæðum, en tækifærin til að komast til mennta eða sanna sig með vinnusemi voru til staðar. Að sama skapi greip samfélagið þá sem á stuðningi þurftu að halda. Ég heyri því miður allt of oft sögur af því að óvænt veikindi leiði til fjárhagsörðugleika vegna þess kostnaðar sem heilbrigðisþjónusta getur haft í för með sér. Ég heyri því miður allt of oft um skort á búsetuúrræðum fyrir aldraða og að þessi hópur, sem skilað hefur sínu ævistarfi, hafi lítið milli handanna. Ég horfi með aðdáun til starfsmanna í heilbrigðiskerfinu sem vinna afar gott starf þrátt fyrir þröngan stakk, en það er ekki endalaust hægt að treysta á bjartsýnina þegar kemur að því að reka vandaða heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að standa vörð um þá samfélagsþjónustu sem sjálfsagt er að íbúar landsins njóti.
Það skiptir öllu máli fyrir framtíð Íslands að ungt fólk velji að setjast hér að. Unga kynslóðin hefur í dag fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að nýta þekkingu sína og menntun þvert á landamæri. Það er mikilvægt að þau sjái Ísland sem landið þar sem gott er að búa, eignast fjölskyldu, skapa verðmæti og láta til sín taka. Það er mikilvægt að við byggjum upp samfélag sem styður við ungar fjölskyldur.
Til þess að styrkja Ísland er brýnasta verkefnið að byggja upp traust á ný og innleiða þau grunngildi sem við sem þjóð viljum byggja okkar samfélag á. Við stöndum á tímamótum og nú er rík þörf á að sameina og sætta. Ég tel að forsetaembættið geti leitt samtal um framtíðina og það, ásamt aukinni áherslu á góð grunngildi, hjálpi okkur að ná sátt og byggja upp traust. Það er nefnilega þannig að þegar við tölum saman sem manneskjur þá erum við miklu oftar sammála en ósammála. Allavega um þá hluti sem virkilega skipta máli. Við erum nefnilega öll í sama liðinu.
Kæru Suðurnesjamenn, ég trúi á samtalið og því langar mig að bjóða ykkur til fundar við mig mánudaginn 20. júní klukkan 20:30, á Nesvöllum.
Halla Tómasdóttir.