Velferðarvaktin vill leggja af kostnaðarþátttöku foreldra
Vegna ritfangakaupa barna
Hvatning Velferðarvaktarinnar til sveitarstjórna, skólanefnda, skólaskrifstofa og skólastjóra, um að leggja kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfangakaupa barna af eða halda henni í lágmarki.
Velferðarvaktinni er m.a. falið samkvæmt skipunarbréfi að „...huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni“.
Velferðarvaktin hefur í gegnum tíðina komið opinberlega á framfæri ábendingum um að sveitarstjórnir leggi áherslu á að halda kostnaði heimila vegna skólasóknar barna í lágmarki í þeim tilgangi að koma til móts við þá sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Þannig komi bágur efnahagur heimilisins síður niður á námi og lífi barna.
Í þessu sambandi hafa svokallaðir „innkaupalistar“, sem börn fá í grunnskólanum að hausti, verið sérstaklega til umræðu, en kostnaður vegna þeirra getur verið umtalsverður.
Síðastliðið haust sendi Velferðarvaktin stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi í tilefni þess að stjórn sambandsins tók til umræðu „fyrirkomulag fjárútláta foreldra vegna kaupa á námsgögnum barna í grunnskóla og fyrirkomulag skólamáltíða“. Sambandið brást við með því halda vinnufundi með fulltrúum Velferðarvaktarinnar og gera úttekt á kostnaði foreldra m.a. vegna ritfanga. Í framhaldinu sendi sambandið út ábendingu til skólanefnda og skólaskrifstofa um kostnað vegna námsgagna þar sem þeim tilmælum er beint til þeirra að kanna framkvæmd þessara mála í sínu sveitarfélagi.
Í úttekt sambandsins sem kynnt var fyrir Velferðarvaktinni þann 17. maí sl. kemur fram að skólar gera mjög mismunandi kröfur um hvaða gögn nemendum ber að koma með í skólann. Er þar um að ræða upphæðir allt frá 400-22.300 krónur. Kostnaður er því mjög mismunandi milli sveitarfélaga og jafnvel milli skóla í sama sveitarfélagi.
Velferðarvaktinni er kunnugt um að ákveðin sveitarfélög, t.d. Ísafjarðarbær og Borgarfjörður eystri, útvegi nemendum ritföng þeim að kostnaðarlausu og að Sandgerðisbær tekur einnig upp slíkt fyrirkomulag á skólaárinu sem hefst nú bráðlega.
Bent skal á að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf, eiga börn rétt á ókeypis grunnmenntun. Þar segir m.a. í 28.gr. „Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum: a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.” Einnig skal bent á að skv. 31 gr. grunnskólalaga skal skyldunám vera veitt að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þar er einnig lagatexti sem stuðst hefur verið við varðandi kostnaðarþátttöku foreldra „Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.“
Velferðarvaktin telur að kostnaðarþátttaka foreldra, vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna, upp á tugi þúsunda króna samrýmist hvorki anda Barnasáttmálans né grunnskólalaganna.
Af þeim sökum hvetur Velferðarvaktin öll sveitarfélög landsins til að leggja slíka kostnaðarþátttöku af eða haldi henni í algjöru lágmarki.
Siv Friðleifsdóttir,
formaður Velferðarvaktarinnar