Velferðarsjóður á Suðurnesjum fagnar ársafmæli
Sunnudaginn 8. nóvember var dagskrá í Keflavíkurkirkju í tilefni ársafmælis Velferðarsjóðs á Suðurnesjum. Sjóðurinn var settur á laggirnar til þess að mæta þeirri miklu þörf sem myndast hefur á svæðinu í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2009. Keflavíkurkirkja hefur haft umsjón með söfnun í sjóðinn og hefur úthlutað úr honum í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar en fénu sem safnast er eingöngu varið til aðstoðar til einstaklinga á Suðurnesjum.
Yfirskrift dagsins var: Velferð, hamingja og lífsgildi og var guðsþjónustan helguð þeim hugtökum bæði í tali og tónum. Að guðsþjónustu lokinni flutti Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar erindi um starfsemi Hjálparstarfsins með sérstakri áherslu á Velferðarsjóðinn. Í máli hennar kom fram að fjöldi umsókna hefur margfaldast á milli ára og er ekkert lát þar á. Að loknu erindi Vilborgar afhenti Hjördís Kristinsdóttir, umsjónarmaður í Keflavíkurkirkju, fulltrúum fyrirtækja og félagssamtaka sem veitt hafa í sjóðinn, viðurkenningu til hvatningar. Markmiðið með viðurkenningunni var bæði að auðsýna þakklæti þeim fjölmörgu sem styrkt hafa sjóðinn en einnig að hvetja fleiri til þess að leggja sjóðnum lið. Alls hefur nú safnast hálf níunda milljón og er framundan frekara átak til söfnunar. Þess verður vonandi skammt að bíða að upphæðin fari yfir 10 milljónir.
Í framhaldi af afhendingu viðurkenninga fluttu þeir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis og Hjörleifur Þór Hannesson, verkefnisstjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum erindi. Yfirskrift erindis Hjálmars var „Hamingjan er hér“ og minnti hann á það að hamingjuna finnum við í hjarta okkar. Hjálmar lýsti reynslu sinni af því þegar hann var endurlífgaður eftir líkamsdauða. Sú reynsla vakti hann til vitundar um það hversu dýrmætt lífið og gjafir þess eru. Hjörleifur kallaði sitt erindi „Jákvæð lífsgildi“ og greindi hann frá þeim áhrifum sem atvinnumissir hafði á hann og hvernig honum tókst að vinna sig upp úr því áfalli sem því fylgdi.
Góð þátttaka var á deginum og ágætar umræður urðu.
Fólk er hvatt til þess að styrkja Velferðarsjóðinn á Suðurnesjum. Reikningsnúmerið er: 1109-05-1151, kt. 680169-5789
Skúli S. Ólafsson
Höfundur er sóknarprestur í Keflavíkurkirkju