Velferðarmálin í lag – bætum kjör eldri borgara
Á aðalfundi 60+ á Suðurnesjum sem haldinn var 15. febrúar 2007 var Ellert B. Schram, formaður 60 + á landsvísu, sérstakur gestur fundarins. Ellert lagði áherslu á að velferðamálunum þyrfti að koma í lag og kynnti leiðir þær sem Samfylkingin mun fara til þess að bæta kjör eldri borgara:
- Hækkun lífeyris þannig að hann dugi fyrir framfærslu
- Hækkun frítekjumarks lífeyrisþega sem nái jafnt til lífeyristekna og atvinnutekna.
- Lækkun skatta á lífeyrissjóðstekjur í 10%.
- Stórátak í byggingu hjúkrunarheimila - eyðing biðlista.
- Hækkun skattleysismarka í samræmi við launabreytingar.
- Tekjur maka skerði ekki tryggingabætur lífeyrisþega.
Vanda sjúkra aldraðra á Suðurnesjum verður að leysa
Að loknum fjörugum umræðum samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun:
„Samkvæmt áætlun átti að ljúka við byggingu 30 rúma hjúkrunarheimili á Nesvöllum í Njarðvík árið 2007, en nú er áætlað að hjúkrunarheimilið verði í fyrsta lagi tilbúið í lok árs 2009. Ekki er að fullu búið að hanna bygginguna og þ.a.l. hefur framkvæmdin ekki verið boðin út. Óvíst er því að ný áætlun um verklok standist.
Nú í dag eru milli 30 og 40 aldraðir sjúkir í Reykjanesbæ í mjög brýnni þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili en þeir dvelja heima
hjá sér eða á dvalarheimilum aldraðra.
Samfylkingin hefur lagt áherslu á að framkvæmdum verði hraðað á Nesvöllum og telur að nú þegar verði að undirbúa frekari fjölgun hjúkrunarrúma til þess að fullnægja kröfum um einbýli sjúklinga á dvalar- og hjúkrunarheimilum en mikið vantar á að þeirri sjálfsögðu kröfu hafi verðið fullnægt.
Minna má að væri D- álma Heilbrigðisstofunnar Suðurnesja nýtt eins og áætlað var, fyrir aldraða sjúka en 24 sjúkrarúm í D- álmunni höfðu
ætíð verið ætluð öldruðum sjúkum, væri staða aldraðra sjúkra á
Suðurnesjum allt önnur."
Stjórn 60+ á Suðurnesjum
Af vef Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ