Velferðarkennsla í Gerðaskóla
Á nýliðnu skólaári hefur verið unnið þróunarverkefni um velferðarkennslu í Gerðaskóla í Garði og hlaut verkefnið styrk úr Sprotasjóði. Verkefnið skiptist í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi að útbúa hentuga kennslustofu fyrir kennsluna og setja slíkar kennslustundir inn í stundatöflur nemenda. Í öðru lagi að bjóða nemendum upp á einstaklingsviðtöl eða markþjálfun um ýmis málefni tengd líðan þeirra og í þriðja lagi markþjálfun fyrir foreldra.
Meginmarkmið verkefnisins var að auka vitund og velferð nemenda í Gerðaskóla með því að skapa aðstæður og rými í stundatöflu til að stunda slíka kennslu. Nemendur í 3.–5. bekk komu reglulega í litlum hópum í rólegheit í velferðarkennslustofu auk þess sem boðið var upp á kynningartíma fyrir aðra nemendur. Byggði kennslan m.a. á núvitund, hugleiðslu, jóga og fleiri hagnýtum verkfærum úr jákvæðri sálfræði. Snerist hún um að bjóða nemendum upp á rólegar kennslustundir og hjálpa þeim að auka vitund, finna frið og slökun og læra að veita tilfinningum sínum athygli og vinna með þær. Jafnframt hafði kennslan það að markmiði að efla félagsfærni nemenda, auka skilning og þekkingu á eigin persónuleikastyrkleikum og þrautseigju. Fjölmargar rannsóknir benda til tengsla núvitundar við aukna vellíðan og hefur m.a. komið fram að vitund og sátt, sem eru hluti núvitundar, geti ýtt undir aukna þrautseigju og að bjartsýni, lífsfylling og þolinmæði einstaklinga sem búa yfir þrautseigju leiði til aukinnar vellíðunnar. Seigla er einnig oft meiri hjá einstaklingum sem tileinka sér núvitund þar sem þeir helga sig síður niðurdrepandi hugsunum og áhyggjum og viðhalda frekar lausnamiðuðu hugarfari.
Rætt var um það við nemendur að allar tilfinningar séu eðlilegar en við þurfum samt sem áður að taka eftir þeim og skoða og velja hvernig við bregðumst við þeim. Kennslan hafði það jafnframt að markmiði að kenna nemendum núvitund með því að taka eftir; umhverfinu, snertingu við líkamann, andardrættinum, hjartslættinum, hugsunum o.fl. Áhersla var lögð á að það sem nemendur læra í velferðarkennslu geti þeir yfirfært á aðrar aðstæður, t.d. bekkjarkennslustofuna, heimilið eða íþróttaæfingar.
Foreldramarkþjálfun var einnig hluti af verkefninu. Markþjálfun er samtalstækni sem byggir á samstarfi markþjálfa og marksækjanda og snýst að mestu leyti um áhrifaríkar spurningar markþjálfa. Með slíkri aðferð næst djúpur skilningur á viðfangsefninu og marksækjandinn leitar lausna og árangursríkra og raunhæfra úrræða í eigin vitund. Byggðu bæði viðtöl við nemendur og foreldra á þessari aðferð auk þekkingar á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, sálfræði í uppeldis- og menntavísindum, jákvæðri sálfræði, PMTO, HAM o.fl. Foreldramarkþjálfun snýst þó ekki endilega um að fást við vandamál, heldur getur hún snúist um að skoða aðstæður, eigin markmið og tilfinningar eða einfaldlega gera góð samskipti betri. Auk þess getur hún nýst foreldrum við að greina vanda og finna lausnir í samskiptum við börn sín, finna lausnir við hegðunarvanda og auka vellíðan, bæði barna og foreldra.
Til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í áætlunum var kennslurýmið nýtt fyrir ýmsar kynningar á núvitund og slökun fyrir nemendur og foreldra. Til dæmis var yngri nemendum boðið upp á slökun á þemadögum og fjölskyldum var einnig boðið í núvitund og slökun á vorhátíð skólans.
Verkefnið í heild sinni gekk frábærlega vel og kennslustofan okkar er komin til að vera. Vonir standa til að áfram megi bjóða upp á ýmis konar slökunar og vitundarþjálfun auk þess að bjóða nemendum upp á fjölbreytt verkefni til að efla tilfinningavitund og félagsþroska.
Laufey Erlendsdóttir, velferðarkennari í Gerðaskóla.