Velferð samborgara
Kæru Suðurnesjabæjarbúar/Sandgerðingar og Garðsmenn.
Það er gott að vera kominn aftur á heimaslóðir, eftir að hafa verið fjarri um all langa tíð frá þjónustu sem sóknarprestur fólks hér suður með sjó. Flutti hingað fyrir tveimur árum og nýt samveru og lífsins í samfélagi góðs fólks. Og mig sannarlega langar til að verða að liði.
Þess vegna hef ákveðið að taka 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurnesjabæ, einkum vegna þess að ég hef áhuga á velferð samborgara okkar, að okkar unga og ekki síður eldra fólk njóti aðstoðar og umhyggju, þeirrar bestu þjónustu sem okkur er unnt að veita. Þá ekki síður að við gætum þeirra sem eiga á brattan að sækja. En þetta er allt undir þeirri ábyrgð, að við gætum tryggrar fjármálastjórnar.
Ástæða framboðsins er einföld; mig langar til að hafa áhrif á fáein grundvallaratriði lifaðs lífs í þessu samfélagi.
Ábyrg fjármálastjórn er grundvöllur þess sem sveitarfélag megnar að aðhafast en þeirri stjórnun verður að vera stýrt af mannelsku; að hlutur þeirra sem lægri tekjur hafa sé og verði jafnaðar til allra almennra þarfa. Ef velferð á að virka, þá þarf öflugt atvinnulíf. Það þarf líka sterka velferð til að gott atvinnulíf þrífist. Þetta er ekki flókið.
Að sveitarfélagið sé viðbúið breyttri og þróaðri búsetu og geti brugðist við þeim breytingum, verið sveigjanlegra í ljósi aukinna möguleika á vinnu að heiman og heima.
Með slíkri fyrirhyggju mun ásókn í lóðir og byggingaframkæmdir hér í Suðurnesjabæ aukast til mikilla muna, sem síðan kalla á fjölbreytt lóðaframboð og öflugann ramma utan um slíka þróun.
Ef við gefum okkur að þessi vöxtur muni eiga sér stað, þá þurfum við heldur betur að standa í fæturnar á mörgum sviðum, svo sem leik- og grunnskólaþjónustu, þjónustu við aldraða og aðra þá sem rétt eiga á þjónustu af hálfu sveitarfélagsins; og að sú þjónusta sé innt af hendi, greidd og uppgerð refjalaust.
Önundur S. Björnsson