Velferð og menntun
– heilbrigð forgangsröðun
Við stjórn ríkisfjármála er mikilvægt að stjórnmálamenn tileinki sér ráð og siði hinnar hagsýnu húsmóður. Við megum ekki eyða meiru en við öflum. Og það þýðir að við verðum að forgangsraða. Það gerir hin hagsýna húsmóðir.
Á hverju ári greiðum við sem nemur 90 milljörðum í vexti af lánum ríkissjóðs. Jafnaðarmenn ætla að greiða niður skuldir til þess að hægt verði að færa peningana úr vaxtagreiðslum yfir í velferð og menntun.
Verkin sýna merkin
Á kjörtímabilinu, sem nú er að ljúka, tókum við á gífurlegum fjárlagahalla með blandaðri leið niðurskurðar og tekjuöflunar. Á sama tíma tókst okkur að jafna skattbyrðunum með réttlátari hætti og verja mikilvægasta velferðarstuðninginn. Þetta er leið jafnaðarmanna. Leið hægri manna snýst um harkalegan niðurskurð í velferðarkerfinu sem bitnar verst á þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Sú leið var t.d. farin á Írlandi með skelfilegum afleiðingum fyrir lágtekjuhópana þar í landi.
Höldum áfram á forsendum jafnaðarstefnunnar
Um leið og við léttum á vaxtagreiðslum ríkissjóðs ætlum við að fjárfesta í velferð og menntun. Grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar er öflug heilsugæsla. Allir eiga rétt á fullnægjandi heilsugæslu óháð efnahag og búsetu. Á sama hátt er Landspítalinn spítali allra landsmanna og uppbygging hans er algjört forgangsmál.
Það er orðið tímabært að menntamál njóti aukins forgangs í íslenskum stjórnmálum. Samfylkingin byggir menntastefnu sína á rótgrónum gildum jafnaðarmanna um jöfnuð og félagslegt réttlæti. Í menntamálunum verður sérstök áhersla lögð á eflingu verk- og tæknimenntunar. Það er óþolandi að hugsa til þess að ungt fólk gangi um atvinnulaust á meðan mikil eftirspurn er eftir einstaklingum með slíka menntun. Þetta er staða sem verður að bregðast við og það verður best gert með stóreflingu verk- og tæknimenntunar.
Eyðum ekki meiru en við öflum – og forgangsröðum
Samfylkingin hefur sýnt að hún kann að forgangsraða út frá gildum jafnaðarstefnunnar á erfiðum niðurskurðartímum. Mikilvægt er að tryggja þeirri forgangsröðun framhaldslíf á næsta kjörtímabili þegar okkur gefst færi á að efla innviði samfélagsins á nýjan leik eftir erfið ár. Við þau verk verður áfram að fylgja ráðum hinnar hagsýnu húsmóður; að afla meiru en við eyðum og forgangsraða rétt.
Árni Rúnar Þorvaldsson.
Skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi