Veldur hver á heldur!
Einhver „Ferlir“ skrifar um að Grænuborg (áður Löngubrekkuhóll) hafi verið sýnd vanvirðing með vörðum sem eru á milli Grænuborgar og „Stapagötu“ (Stapavegar). Ef hann hefði farið út úr bílnum þá hefði hann séð að borgin er óskemmd í góðu ástandi.
Það hefur greinilega komið í ljós að tilgangurinn með vörðum þessum er að gera umhverfið sýnilegra, vekja athygli á landinu og gömlum örnefnum. Ef forfeður okkar hefðu haft þau tæki til vörðugerðar sem við höfum í dag þá væru Álbrúnarvörður og Koefedsvarða sjáanlegar í dag.
Traðkið eftir stórvirk tæki eru hlutir sem lagfærðir verða með hækkandi sól. „Ferlir“ vill varða leiðina á Stapanum fyrir áhugasamt útivistarfólk og nefnir Grímshól. Þær vörður sem nú eru komnar eru innan marka Reykjanesbæjar og eru ýmist til að staðsetja landamörk með gervihnattatækni og vekja athygli á sögnum og örnefnum.
Það er nú ánægjulegt að sjá hvað núverandi sveitarstjórn leggur mikinn metnað í umhverfismál, varnir gegn landbroti sjávar – snyrtimennska og fegrun sem allsstaðar blasir við.
Veldur hver á heldur.
Áki Gräns