Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Veitingamaður = glæpamaður?
Miðvikudagur 11. febrúar 2009 kl. 11:47

Veitingamaður = glæpamaður?

Kæri Erlingur Jónsson. Vegna greinarinnar sem þú skrifaðir í Víkurfréttir sl. fimmtudag finn ég mig knúinn til að svara þér í nokkrum orðum.

Í grein þinni segistu hafa heimildir fyrir því að börn allt niður í 13 ára eigi greiðan aðgang að skemmtistöðum í Reykjanesbæ, svo lengi sem börnin eigi pening. Þú nánast fullyrðir að veitingamenn og eigendur skemmtistaða í Reykjanesbæ séu siðblindir glæpamenn sem svífist einskis til að græða pening. Þú segir í grein þinni að þetta eigi við um "FLESTA" skemmtistaði í Reykjanesbæ þannig að meðan þú nafngreinir ekki þá sem þú telur að hegði sér á þennan hátt liggja allir undir grun, þar á meðal ég.

Svona þung orð bera mikla ábyrgð og valda miklu umtali í okkar litla samfélagi og hef ég þurft að svara fyrir þessar ásakanir og verið dreginn inn í þessa umræðu. Ég er ekki tilbúinn til að taka því þegjandi að vera bendlaður við unglingadrykkju og siðleysi. Í þau tæp 7 ár sem ég hef rekið skemmtistað í Reykjanesbæ hef ég ALDREI vísvitandi afgreitt unglinga um áfengi eða hleypt unglingum inn á minn stað. Ég hef á að skipa úrvals
starfsfólki sem ég get fullyrt að myndi aldrei taka þátt í að hleypa inn eða afgreiða 13-16 ára börn og sárnar mér þessar ásakanir verulega fyrir þeirra hönd.

Kæri Erlingur. Ég ber mikla virðingu fyrir þér og því góða forvarnarstarfi sem þú ert að vinna að hjá Lundi, og sem fjögurra barna föður finnst mér gott að vita að þú lætur þér annt um ungdóminn okkar hér í Reykjanesbæ. En hversu göfugur sem málstaðurinn er þá gefur hann þér ekki skotleyfi á annað fólk. Ef þú telur að þínar heimildir séu traustar áttu bara ganga alla leið og nafngreina þá aðila sem þú telur að séu sekir því þá þyrftu saklausir aðilar ekki að verða fyrir barðinu á illu umtali og gróusögum.

Að lokum vil ég óska þér til hamingju með nýja kaffihúsið þitt og bjóða þig velkominn í hóp veitingamanna í Reykjanesbæ sem eru, þegar að er gáð, ekki allir glæpamenn.


Með vinsemd og virðingu,
Jóhann Halldórsson
veitingamaður á Paddy´s
Hafnargötu 38
Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024