Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Veistu hvað þú átt?
Laugardagur 4. júní 2011 kl. 20:10

Veistu hvað þú átt?


Fyrir fimm árum, eftir að ég flutti aftur á heimaslóðir, fór ég að ganga Reykjanesskagann og skoða hann í gegnum linsuna á myndavélinni. Skemmst er frá að segja að ekki eftir svo margar gönguferðir var ég orðinn algerlega heillaður af þeirri náttúru sem opnaðist fyrir mér. Náttúru, sem ekki sést  frá Reykjanesbrautinni, en sú mynd sem  margir hafa af svæðinu eru endalausir hraunflákar og lág móbergsfjöll, sem blasa við út um hliðargluggann þegar ekið er eftir Brautinni. Við fyrstu sýn lítur þetta landslag út fyrir að vera fremur einsleitt.  Af því draga sumir þá ályktun að þarna sé fátt merkilegt að sjá.

En það er öðru nær þegar maður leggur land undir fót ( í bókstaflegri merkingu) og fer að skoða náttúruperlur Reykjanesskagans. Það góða er að þær eru flestar vel aðgengilegar og fæstum ætti að vera ofraun að rölta um þessi svæði. 

Núna þegar himinhátt bensínverð er farið að sliga rekstur heimilana er hætt við að margir muni draga úr akstri og ferðalögum út á land. Nýlegar tölur Vegagerðarinnar benda ótvírætt til þess. Hvað er þá til ráða fyrir þá sem hafa gaman af að ferðast, njóta útivistar og skoða landið okkar fagra en treysta sér ekki í langferðir vegna kostnaðar?

Jú, að ferðast á heimaslóðum. Núna er rétti tíminn til þess!

Hefurðu komið út í Krýsuvík nýlega? Gengið Sveifluhálsinn og Ketilstíginn? Skoðað Selatanga og Katlahraun? Eða Trölladyngjusvæðið og Sogin? Gengið á Þorbjörn eða Keili? Skoðað umhverfið kringum Reykjanesvita?  Eða misgengið við Gálgakletta? Hefurðu upplifað fuglalífið í Krýsuvíkurbjargi eða litadýrðina á háhitasvæðunum?

Þetta er bara stutt upptalning, það er svo margt hægt að sjá, skoða og upplifa á eigin vegum hér á Reykjanesskaganum. Einnig eru hér á Suðurnesjum starfandi ferðaþjónustuaðilar sem bjóða upp á ýmsa afþreyingu  og upplifun eins og hellaferðir, fjórhjólaferðir og hestaferðir, auk þess sem hægt er að fara í veiði t.d. í Kleifarvatni. Og ekki vantar söfnin og menninguna, fyrir þá sem hafa áhuga á því.  Möguleikarnir eru margir.

Láttu ekki himinhátt bensínverð aftra þér frá því að njóta íslenskrar náttúru. Við eigum nóg af henni hér heima!

Sumarkveðja,
Ellert Grétarsson,
náttúruunnandi.

Ps. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem ég hef tekið á ýmsum stöðum á Reykjanesskaga. Fleiri myndir er hægt að skoða á Facebook-ljósmyndasíðunni minni og heimasíðunni www.elg.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Kinnagjár á Reykjanesi. Yfir aðra þeirra liggur svokölluð Brú milli heimsálfa sem tákn um flekaskil Evrasíu og Norður-Ameríku jarðskorpuflekanna. Forvitnilegt er að ganga eftir gjánum og skoða þær.




Náttúrulaug ofan við Valbjargargjá, Reykjanesviti í baksýn. Hér lærðu Grindvíkingar sundtökin um og eftir 1930. Söguminjar eru hvarvetna á Reykjanesskaga.




Litadýrð í Sogunum við Trölladyngju.

Stórbrotið landslag á Sveifluhálsi. Móbergshryggir sem þessi, sem urðu til við eldgos undir ísaldarjökli, eiga sér hvergi hliðstæðu.  Ef vel er að gáð má greina gönguhóp þarna niðrí dældinni, sem gefur betur til kynna hversu stórbrotið þetta landslag er. 

 

Á Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Hér er horft yfir Djúpavatn og Móhálsadal en þetta svæði hefur að geyma tilkomumikið eldfjallalandslag.



Hraunsveppur í Katlahrauni, vestan við Selatanga. Þarna er svipuð hraunmyndun og í Dimmuborgum. 




Fallegur gatklettur yst á Reykjanesi. Hvarvetna meðfram ströndinni má sjá baráttu hafs og hrauna um yfirráð. Eins og er hefur hafið yfirhöndina.