Veikir borgi ekki
Nýleg úttekt Landlæknis á starfseminni staðfestir að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur mætt afgangi í kerfinu um árabil. Starfsfólkið gerir sitt allra besta en fjármagn skortir. Markmið okkar Framsóknarmanna er að allir íbúar njóti jafnræðis gagnvart opinberri þjónustu og að greiðsluþátttaka ríkisins taki líka til andlegra veikinda. Markmiðið er skýrt og leiðirnar eru færar.
Heilbrigðisáætlun
Heilbrigðiskerfið okkar hefur þróast en þó ekki verið gerð heildstæð stefnumótun fyrir kerfið til langs tíma. Við Framsóknarmenn gerðum heilbrigðisáætlun fyrir Ísland að forgangsmáli okkar. Málið var samþykkt vorið 2017. Áætlunin felur í sér að fé verði úthlutað til stofnana með markvissum hætti og tillit tekið til íbúaþróunar, aldurssamsetningar íbúa og umfangi ferðamannastaða, svo eitthvað sé nefnt.
Fjármagnið er til staðar
Við getum fjármagnað þessi verkefni. Framsóknarflokkurinn vill fjárfesta 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntakerfinu, þar af færu 10 milljarðar í heilbrigðiskerfið. Slík fjárfesting ógnar ekki stöðugleikanum. Tekjuafgangur ríkissjóðs er umtalsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Áfram verður haldið að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Eigið fé bankanna er hátt og töluvert umfram þau mörk sem lög gera ráð fyrir. Framsókn vill að bankarnir nýti strax það svigrúm sem þeir hafa til að greiða arð í ríkissjóð en sú fjárhæð gæti numið um 40 milljörðum sem myndi nýtast til að lækka skuldir ríkisins.
Geðheilbrigði
Kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi er hærri en á Norðurlöndunum. Núverandi kerfi er íþyngjandi, sérstaklega ef fólk er búið að greiða hámark kostnaðar vegna læknisþjónustu og lyfja. Sameina þarf þessi tvö kerfi. Framsókn vill enn fremur að tannlækninga-, sálfræði- og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Framtíðarmarkmið er að veikir borgi ekki. Sálfræðiþjónustu á að greiða niður strax. Um 20% barna og ungmenna hafa einhvern tíma fyrir 18 ára aldur þurft að leita aðstoðar vegna geðrænna erfiðleika. Bregðast þarf snemma við þegar geðrænir erfiðleikar gera vart við sig hjá börnum og fullorðnum. Framsókn vill fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd og verði hluti af greiðsluþátttökukerfinu eins og önnur heilbrigðisþjónusta.
Það er kominn tími til að við fjárfestum í heilbrigðiskerfinu okkar. Getum við ekki öll verið sammála um það?
Silja Dögg Gunnarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismenn og Jóhann Friðrik Friðriksson, í 4. sæti á lista Framsóknarflokksins