Vegtollar snerta hagsmuni Suðurnesjamanna
Gleðilegt árið!
Ég vill vekja athygli á þessari undirskriftasöfnun hjá FÍB sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram í okkar svæðisblaði. Mér þykir þetta mál snerta hagsmuni Suðurnesjamanna og tel því nauðsynlegt að það sé kynnt svo Suðurnesjamenn viti af þessum undirskriftarlista.
Það er mikið búið að þrengja að heilsugæslunni á suðurnesjum og neyða Suðurnesjamenn til að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Ef þetta bætist ofan á, yrði heilbrigðisþjónusta mun dýrari fyrir fólkið á Suðurnesjum miðað við fólk á höfuðborgarsvæðinu Þetta gæti skekkt samkeppnistöðu fyrirtækja á Suðurnesjum og einnig haft mikil áhrif á allan þann fjölda fólks sem býr á svæðinu en vinnur á höfuðborgarsvæðinu. Þar fyrir utan er þetta líka spurning um grundvallarsjónarmið um hlutverk vegakerfisins á Íslandi eins og FÍB kemur einnig inná. Hér fyrir neðan er yfirlýsing FÍB og slóðin fyrir undirskriftasöfnunina.
„Stjórnvöld hafa ákveðið að girða höfuðborgarsvæðið af með tollmúr og leggja vegtolla á alla umferð um þjóðvegina inn á og út af svæðinu þegar endurbótum á þessum vegum verður lokið eftir fá ár. Þau hafa valið úr umferðarþyngstu kaflana af samhangandi og samstæðu þjóðvegakerfi Íslands til að gera sérstaklega gjaldskylda í ofanálag við gríðarháa skatta sem fyrir eru á eldsneyti, bifreiðar og rekstur þeirra. Þetta er gjörbreyting á grundvallarhugmyndinni um þjóðvegi í þágu allra byggða og allra landsmanna.“
Hér er slóðin til þess að skrá sig á listann: https://secure.fib.is/vegtollar.php en ef slóðin virkar ekki má líka fara í gegnum heimasíðu FÍB, www.fib.is inná listann.
Kveðja,
Elmar Geir Jónsson