Vegna skrifa um spillingu hjá Sandgerðisbæ
Spilling er alvarleg. Ég vil ekki vera sakaður um spillingu og hvað þá að gerast sekur um slíkt. Sandgerði er lítið samfélag og með góðum vilja er hægt að finna alls konar tengingar á milli manna ef nógu vel er leitað.
Ég á stóra fjölskyldu og marga vini og því auðvelt tengja mig við einstaka mannaráðningar hjá Sandgerðisbæ. Það að vera tengdur mér á einhvern hátt eða þá að tengjast S-listanum á þó ekki að gera hæft fólk vanhæft til að starfa fyrir bæjarfélagið. Þá er rétt að benda á að um vanhæfi sveitarstjórnarmanna er fjallað í sveitarstjórnarlögum og eftir þeim hefur að sjálfsögðu verið unnið hjá Sandgerðisbæ bæði hvað mig varðar sem og aðra bæjarfulltrúa.
Undanfarnar vikur hefur Grétar Mar Jónsson verið duglegur að skrifa greinar um ýmislegt sem tengist bæjarmálum í Sandgerði. Það er ánægjulegt að menn taki opinberlega þátt í umræðu um málefni bæjarfélagsins og eðlilegt að gera kröfu til þeirra sem það gera að þeir fari rétt með staðreyndir. Því miður hefur á stundum vantað upp á það hjá Grétari Mar.
Í þessu ljósi get ég ekki annað en svarað þeim rangfærslum sem settar eru fram í nýjustu grein Grétars um ráðningar hjá Sandgerðisbæ, sem virðist einungis skrifuð með það að sjónarmiði að koma persónulegu höggi á mig og valda bæjarfélaginu skaða. Þá er grein Grétars aðför að starfsæru starfsmanna Sandgerðisbæjar sem hafa verið ráðnir til starfa sinna vegna þekkingar, hæfni og reynslu en ekki venslatengsla eða einhverra annarra annarlegra ástæðna.
Það er rétt að fara stuttlega yfir þau atriði sem Grétar telur upp í greininni sinni:
*
Bergný Jóna Sævarsdóttir var ráðin í tímabundið starf verkefnisstjóra Sandgerðisdaga 2010. Þegar það var gert voru nýafstaðnar kosningar og stutt í hátíðina og mikilvægt að koma undirbúningi af stað til að ekki færi illa í framkvæmd hennar. Það lá því beint við að leita til Bergnýjar sem er borinn og barnfæddur Sandgerðingur, með háskólapróf í verkefnastjórnun og hafði verið verkefnastjóri hátíðarinnar tvívegis áður jafnframt því að hafa komið að skipulagi hennar um árabil.
*
Ég get ekki svarað fyrir störf fyrri meirihluta en síðsumars 2010 var atvinnu- og hafnarráði, þar sem Grétar Mar átti sjálfur sæti, falið að vinna verkefni sem m.a. tengdust endurskipulagningu á starfsemi Sandgerðishafnar. Þar sem ráðið var ekki með sérstakan starfsmann á sínum vegum var formanni þess falið að sinna nauðsynlegri undirbúningsvinnu á milli funda ráðsins og fékk hann greitt sérstaklega fyrir það. Þetta var gert og ráðið skilaði tillögum sínum til bæjarstjórnar fyrir síðustu áramót og er í dag unnið eftir þeim. Með nýju fyrirkomulagi er hagræðingar gætt í rekstri um leið og góð þjónusta er tryggð.
*
Í upphafi þessa árs var Grétar Sigurbjörnsson ráðinn verkefnastjóri við Sandgerðishöfn. Hann var ráðinn úr hópi umsækjenda og var Grétar Mar einn þeirra sem sótti um starfið. Í framhaldi af viðtölum við alla umsækjendur var það niðurstaða fjögurra af fimm fulltrúum í atvinnu- og hafnarráði að mæla með ráðningu Grétars Sigurbjörnssonar og þar réð eflaust miklu góð reynsla af störfum hans sem hafnarvörður við Sandgerðishöfn. Bæjarstjórn staðfesti að sjálfsögðu vilja atvinnu- og hafnarráðs.
*
Styttra er síðan Torfi Gunnþórsson var ráðinn í stöðu hafnarvarðar við Sandgerðishöfn. Alls sóttu 10 einstaklingar um það starf og voru þeir allir teknir í viðtöl vegna umsóknanna, sem bæjarstjóri stýrði. Verkefnastjóri við Sandgerðishöfn var viðstaddur sum viðtölin og formaður atvinnu- og hafnarráðs önnur. Það var mat bæjarstjóra út frá þessum viðtölum að ráða ætti Torfa í stöðuna. Það er rétt að geta þess að Torfi hefur í nokkur ár verið farsæll starfsmaður áhaldahúss Sandgerðisbæjar, en hann missti nýlega starf sitt þar vegna sparnaðaraðgerða bæjarstjórnar.
*
Eftir að starf hafnarvarðar var auglýst kom upp sú staða að það yrði að ráða annan hafnarvörð vegna tímabundinna afleysinga og sumarleyfa. Til að gæta hagkvæmni var ákveðið að leita í hóp þeirra hæfu einstaklinga sem höfðu þegar sótt um stöðu hafnarvarðar í stað þess að auglýsa að nýju, enda einungis um tímabundið starf að ræða. Ákveðið var að ráða einn þeirra umsækjenda, margreyndan skipstjóra Guðjón Bragason, í þessa afleysingastöðu. Það var bæjarstjóri sem þar að auki er hafnarstjóri sem tók ákvörðun um tímabundna ráðningu Guðjóns í samræmi við samþykktir bæjarfélagsins.
*
Birgir Haraldsson var ráðinn tímabundið í eitt ár í starf deildarstjóra umhverfis- og skipulagsmála. Sú ráðning var samþykkt samhljóða af allri bæjarstjórninni í upphafi síðasta vetrar. Árið þar á undan hafði Verkfræðistofa Suðurnesja sinnt verkefnum á sviði byggingafulltrúa fyrir Sandgerðisbæ og var Birgir sá starfsmaður stofunnar sem sá um þann þáttinn. Það var samdóma álit allra sem komu að málinu að frammistaða Birgis hafi verið með þeim hætti að ekki kæmi annað til greina en að hann tæki tímabundið við deildarstjórastöðunni. Síðsumars 2011 verður árangur af þessu fyrirkomulagi metinn og tekin ákvörðun um það hvort staða deildarstjóra umhverfis- og skipulagsmála verði auglýst laus til umsóknar til framtíðar eða hvort fyrirkomulaginu á þessum málaflokki verði breytt.
*
Ákveðið var að fara nýja leið í rekstri íþróttamannvirkja hjá Sandgerðibæ með því að taka upp samstarf við Sveitarfélagið Garð og er nú eini og sami einstaklingurinn forstöðumaður í íþróttamiðstöðvum beggja sveitarfélaganna. Sá sem sinnir því starfi hefur rekið Íþróttamiðstöðina í Garði með myndugleik frá upphafi og er fengur fyrir Sandgerðisbæ að fá svo reyndan og vel liðinn mann til starfa. Þetta samstarf sveitarfélaganna er gott dæmi um það hvernig íslensk sveitarfélög hafa þurft að leita nýrra leiða til að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi.
*
Starf við ræstingar í Samkomuhúsinu í Sandgerði var auglýst laust til umsóknar í mars og var miðað við að umsóknarfrestur væri út þann mánuð. Því átti að taka málið fyrir á fundi bæjarstjórnar 6. apríl s.l. Á þeim fundi kom hins vegar í ljós að mistök höfðu verið gerð við auglýsingu á starfinu, þar sem umsóknarfrestur var gefinn til 11. apríl. Afgreiðslu málsins var því frestað. Á fundi bæjarráðs 12. apríl var bæjarstjóra síðan falið að ganga frá ráðningu í starfið enda átti þá eftir að ræða við suma umsækjendur. Bæjarstjóri mun tilkynna bæjarráði um niðurstöðu sína á fundi 26. apríl. n.k.
Eins og ofangreind upptalning sýnir er það fjarri lagi að halda því fram að spilling ráði för þegar kemur að mannaráðningum hjá Sandgerðisbæ. Þvert á móti hafa fagleg vinnubrögð verið viðhöfð þar sem hagsmunir bæjarfélagsins hafa verið höfð að leiðarljósi.
Ég fagna því að menn ræði málefni Sandgerðisbæjar opinberlega og komi skoðunum sínum á framfæri. Umræðan er undirstaða lýðræðisins. En ég hlýt að gera þá kröfu að menn fari rétt með staðreyndir og hafi fyrir því að kynna sér málin áður en þeir láta í sér heyra.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar