Vegna leigu búsetuúrræðis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ
Í fjölmiðlaumfjöllun undanfarna daga hefur meðal annars komið fram að Vinnumálastofnun hafi yfirboðið leiguíbúðir í Reykjanesbæ í því skyni að nýta þær sem búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í ljósi þess vill Vinnumálastofnun koma eftirfarandi á framfæri:
Vinnumálastofnun er meðvituð um þann fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem stofnunin veitir þjónustu í Reykjanesbæ og það álag sem fjöldinn hefur í för með sér á innviði sveitarfélagsins. Vegna þessa hefur stofnunin ásamt öðrum aðilum átt í góðu og nánu samstarfi við Reykjanesbæ þar sem meðal annars er verið að leggja mat á þær áskoranir sem upp hafa komið auk þess sem unnið er að lausnum.
Hvað varðar leigu á búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur Vinnumálastofnun falið Framkvæmdasýslunni/Ríkiseignum að finna slíkt úrræði fyrir hönd stofnunarinnar. Í þessu sambandi tók Framkvæmdasýslan/Ríkiseignir fyrir skemmstu á leigu húsnæði í Reykjanesbæ þar sem fyrir eru leigjendur en í því tiltekna tilviki hefur eigandi húsnæðisins staðfest við Framkvæmdasýslu ríkisins/Rikiseignir að öllum leigjendum verði boðið annað húsnæði sem er í eigu húseiganda þegar gildistími núverandi leigusamninga rennur út. Þá hefur Framkvæmdasýslan/Ríkiseignir staðfest við Vinnumálastofnun að leigan sem greidd er fyrir það búsetuúrræði sem hér um ræðir sé sú sama og núverandi leigjendur greiða.
Er það von Vinnumálastofnunar að samtal og samstarf við Reykjanesbæ undanfarna mánuði og afrakstur þess verði grundvöllur fyrir áframhaldandi gott samstarf við Reykjanesbæ vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks.