Vegna fyrirspurnar Jóhanns Sævars Kristbergssonar
Einelti er því miður að finna í öllum grunnskólum á landinu samkvæmt könnunum. Mikilvægt er að taka á eineltismálum af fagmennsku. Þöggun og múgæsing er því alls ekki hluti af slíkum vinnubrögðum. Fullyrða má að starfsmenn og stjórnendur grunnskóla Reykjanesbæjar leggja sig fram um að taka af vandvirkni á öllum málum þar sem grunur liggur um einelti gagnvart nemanda.
Til er mæling á ýmsum þáttum í grunnskólastarfi í landinu, sem gerð í gegnum svonefnda Skólavog. Í könnun Skólavogar sem gerð var í vetur, þar sem foreldrar í 30 sveitarfélögum á landinu meta úrvinnslu eineltismála í skólum, að Reykjanesbær er í 6. sæti hvað varðar ánægju foreldra með úrvinnslu eineltismála og í 2. sæti yfir landið hvað varðar hraða í úrvinnslu þeirra.
Fyrirspurn í VF til Reykjanesbæjar tengist því að skólastjórnandi sé í forsvari fyrir sundhreyfinguna hér í bæ, og er þá væntanlega átt við Sigurbjörgu Róbertsdóttur skólastjóra Akurskóla. Samkvæmt könnuninni í Skólavoginni virðist vel staðið að úrvinnslu eineltismála í Akurskóla, því skólinn er í öðru sæti yfir landið í sínum stærðarflokki hvað varðar ánægju foreldra með úrvinnslu eineltismála í skólanum.
Með heill og vellíðan barnanna í huga vonum við heilshugar að það takist að finna farsæla lausn á því máli sem farið hefur í fjölmiðlaumræðu undanfarna daga.
Árni Sigfússon bæjarstjóri,
Gylfi Jón Gylfason framkvæmdastjóri fræðslusviðs.