Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vegna aðstöðu Hæfingarstöðvarinnar
Föstudagur 13. desember 2013 kl. 15:11

Vegna aðstöðu Hæfingarstöðvarinnar

- Svar við bréfi vegna aðstöðu Hæfingarstöðvarinnar, Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ

Það kann einhverjum að finnast athugavert að ég skuli svara „opnu bréfi“ til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. En þar sem ég er sá embættismaður bæjarins sem ber ábyrgð á starfsemi Hæfingastöðvarinnar, tel ég mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri:

Það er margt rétt sem kemur fram í bréfi Rutar varðandi stöðu húsnæðisins þegar sveitarfélagið tók yfir starfsemi Hæfingarstöðvarinnar. Sveitarfélaginu stóð til boða að kaupa húsnæðið, en ákvað að gera það ekki. Var það m.a. gert í ljósi þess að menn vildu skoða aðra möguleika fyrir starfsemina.

Strax við yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélagsins var m.a. hafin athugun á  hvort hægt væri að finna hentugra húsnæði fyrir starfsemi Hæfingarstöðvarinnar og þá  sérstaklega haft í huga aðstaða til útiveru og hugsanlega gróðurræktunnar, en einnig horft til staðsetningar og talið mikilvægt að hún væri miðsvæðis í samfélaginu.  Eftir þá skoðun  var niðurstaðan að stærð húsnæðisins að Hafnargötu 90 og staðsetningin vægi þyngra en gróðuraðstaða, fyrir þá starfsemi sem þar færi fram.
 
Samstarf við eigendur hússins hefur  frá upphafi verið  hið besta og m.a. var strax farið í viðhaldsframkvæmdir sem hafði verið ábótavant til margra ára, eins og kemur fram í bréfi Rutar.

Í byrjun sumars 2013 komu upp grunsemdir um að það kynni að vera „sveppur“ í húsnæðinu.  Strax var brugðist við af hendi húseiganda, sem fékk sérfræðinga til verksins, sem stóð yfir í nokkrar vikur.  Á meðan á framkvæmdum stóð var starfsemin flutt í húsnæði Þroskahjálpar við Suðurvelli. Fljótlega eftir að starfsemin hófst á ný að Hafnargötu 90, komu upp grunsemdir um að ekki hefði komist að öllu fyrir þær rakaskemmdir sem valdar voru af sveppamynduninni. Þá þegar var ákveðið að notendur og starfsmenn skyldu njóta vafans og húsnæðinu lokað á meðan farið var í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir, húsgögnum skipt út ofl. Leitað var til Hús og Heilsu sem sérhæfa sig í „sveppa“myndunum í húsum og farið að tilmælum þeirra við framkvæmdina.  

Nú er starfsemin komin á fullt aftur í húsnæðinu við Hafnargötu 90. Undirrituð hefur verið í sambandi við starfsmenn og aðstandendur og hvergi komið fram annað en að menn séu sáttir.  

Að lokum er rétt að geta þess, að lengi var horft til húsnæðis Þroskahjálpar við Suðurvelli sem hugsanlegs framtíðarhúsnæðis fyrir Hæfingarstöðina.  Af því verður þó ekki, en það mun samt áfram þjóna fötluðu fólki, því undirrituð hefur verið  viljayfirlýsing milli Reykjanesbæjar og Þroskahjálpar um að breyta húsnæðinu í íbúðir fyrir fatlað fólk.  

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem að málum komu á þessu langa ferli og óska öllum gleðilegra jóla.

Hjördís Árnadóttir
Framkvæmdastjóri Fjölskyldu- og félagssviðs

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024