Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vegatollur á Reykjanesbraut
Föstudagur 24. febrúar 2017 kl. 06:00

Vegatollur á Reykjanesbraut

- Aðsend grein frá Margréti Sigrúnu Þórólfsdóttur

Jón Gunnarsson samgöngumálaráðherra sagði um daginn að það væri það eina rétta í stöðunni að taka upp vegatolla á þá vegi sem leiða út frá Reykjavík og er Reykjanesbrautin þar á meðal sem vænlegur kostur. Hann segir að vegatollar séu eina leiðin til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vegakerfisins á íslandi. En höfum við Suðurnesjabúar ekki verið þarna áður hvað varðar tollgjald á Reykjanesbrautinni? Er þá ekki gott að rifja það aðeins upp?

Reykjanesbrautin eða Keflavíkurvegurinn eins og hann var kallaður þá, var formlega opnaður 1965 og var þá eini þjóðvegurinn á Íslandi sem var með bundu slitlagi og innheimt tollgjald í tollskýli við Straumsvík. Tollgjaldið var í upphafi 200 krónur og þótti ansi hátt þá þeim tíma. En í lok ársins 1972, nánar tiltekið þann 31. desember, var innheimtu umferðargjalds hætt því búið var að borga upp það lán sem tekið var til framkvæmdanna (sbr. Vegminjasafnið, 1983).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sem sagt, við borguðum vegatoll í 7 ár til þess að borga upp þennan veg og komast til höfuðborgarinnar og nú er okkur boðið upp á að endurtaka leikinn. Vegatollar geta verið ágætir þar sem við á en nú þegar eru bifreiðaeigendur að greiða 33 milljarða í formi eldsneytisskatta á hverju ári en einungis 30% af þessum eldsneytisskatti og bifreiðagjöldum renna til viðhalds og uppbyggingu vegakerfisins á Íslandi. Ef við færum í samlíkingardæmi þá væri þetta eins og að þú keyptir þér árskort á líkamsræktarstöð en yrðir samt að greiða fyrir hvern þann tíma sem þú mætir í ræktina og tækin væru öll úr sér gengin með mikilli slysahættu.

Væri nú ekki nær fyrir ráðamenn þessa lands að láta þá peninga sem eyrnamerktir eru til vegagerðar renna til vegagerðar og hætta þessari margsköttun á landsmenn og þá sérstaklega okkur sem þurfum nauðsynlega að nota þessa skattlögðu vegi sem Jón Gunnarson hefur valið til skattlagningar. Við hér á Suðurnesjum gerum okkur fyllilega grein fyrir því bagalega ástandi sem Reykjanesbrautin er í dag með sínum djúpu hjólförum, holum og ónógu viðhaldi. Þetta er jú mest keyrði vegurinn á Íslandi. Við sem samfélag höfum fengið að finna fyrir því að brautin er ókláruð hvað varðar tvöföldun í báðar áttir frá Fitjum að flugstöð og frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar því þar er slysatíðnin hæst.

En það er einkennilegt að ráðherrann sjái aðeins þann möguleika að fara í aukna skattheimtu til þess að klára tvöföldun Reykjanesbrautar og eðlilegs viðhalds á henni. Þessir vegatollar eru viðbótar skattheimta sem mundi leggjast mest á námsmenn sem stunda framhalds- og háskólamenntun í Reykjavík, einnig á þá fjölmörgu sem fara til vinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Því spyr ég, er þetta sú aðferðarfræði sem okkur hugnast eða hugnast ekki hvað varðar vegatoll á Reykjanesbraut? Væri ekki ágætt að leggja þetta fyrir þjóðina og sjá hvort þessir vegatollar séu henni að skapi eða ekki? Þá fengist lýðræðisleg niðurstaða sem allir gætu sætt sig við.

Margrét Sigrún Þórólfsdóttir