Aðsent

Vegasamgöngur á Suðurnesjum
Þriðjudagur 4. apríl 2017 kl. 06:00

Vegasamgöngur á Suðurnesjum

- Aðsend grein frá stjórn Pírata á Suðurnesjum

Stjórn Pírata á Suðurnesjum vill stefna að traustum og öruggum vegasamgöngum á Suðurnesjum. Mikið mæðir á enda fara hér um svæðið vel yfir milljón ferðamenn á ári, auk allra Íslendinganna sem keyra um Reykjanesbrautina á leið sinni í og úr millilandaflugi. Allt þetta fólk þarf að aka brautina sem er einn fjölfarnasti en um leið hættulegasti þjóðvegur landsins eins og dæmin sanna.

Það er ýmislegt sem þarf að gera til að bæta öryggi á Reykjanesbraut. Hæst ber að ljúka tvöföldun brautarinnar allt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fyrsta hringtorgi þegar komið er að Hafnarfirði, enda hefur það sýnt sig að alvarleg slys eru mun fátíðari á tvíbreiða kafla brautarinnar heldur en þeim einbreiða. Tvöföldun Reykjanesbrautar er á samgönguáætlun og þarf að ljúka sem allra fyrst. Stjórn Pírata á Suðurnesjum telur því nauðsynlegt að endurskoða samgönguáætlun og flýta tvöföldun Reykjanesbrautar til að koma í veg fyrir frekari slys og dauðsföll á Reykjanesbraut.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vissulega þarf að huga að hvernig fjármagna skuli framkvæmdirnar, en heildarkostnaður við hana er áætlaður um 10 milljarðar króna. Það mætti skoða að þar sem ferðaþjónustan er að auka álag á Reykjanesbrautina ætti hún að taka þátt í að greiða fyrir úrbætur. Einnig voru óinnheimt innflutningsgjöld af bílaleigubílum rúmir 3,5 milljarðar króna í fyrra. Alþingi gæti breytt lögum til að afnema strax þessa undanþágu frá innflutningsgjöldum af frekari innflutningi bílaleigubíla og nota hluta þessa fjármagns til að fjármagna úrbætur á Reykjanesbraut.

Viðhald Reykjanesbrautar hefur verið í lágmarki. Holur, mishæðir og rásir í malbikinu á brautinni hafa verið viðvarandi. Viðhald á ljósastaurum hefur ekki verið sinnt sem skyldi og lýsing er spöruð, einungis er kveikt á öðrum hverjum ljósastaur og þeir eru flestir sömu megin, ekki í miðjunni á milli akreina. Hægt væri að setja ljósdíóðuperur í staurana til að spara kostnað við lýsingu. Áhöld eru einnig um hvort staurarnir séu nægilega öruggir og uppfylli öryggisstaðla. Raunar hefur Ólafur Guðmundsson tæknistjóri EuroRAP (European Road Assessment Program) á Íslandi sagt þá vera ólöglega og lífshættulega. Því er ljóst að fjármagni til viðhalds má ekki gleyma þótt farið verði í tvöföldun brautarinnar.

Grindavíkurvegurinn er einn af þeim vegum sem mikið mæðir á vegna fjölgunar ferðamanna þar sem Bláa lónið er einn vinsælasti viðkomustaður þeirra, bæði vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn og tengingar við Suðurstrandarveginn. Það er ljóst að verulegra úrbóta er þörf á Grindavíkurvegi. Ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar til lagfæringar eins og aðskilnaður akreina, bættar merkingar, hraðamyndavélar, hraðahindranir, lýsing vegarins og betri frágangur hraunsins meðfram veginum. Stjórn Pírata á Suðurnesjum fagnar slíkum hugmyndum.

Að lokum vill stjórn Pírata á Suðurnesjum hvetja til opinnar og lausnamiðaðrar umræðu um þessi mál á svæðinu. Það er fátt sem getur haft jafn bein áhrif á afkomu og öryggi íbúa en traustar samgöngur.

Albert Svan Sigurðsson, ritari
Fanný Þórsdóttir, formaður
Hrafnkell Brimar Hallmundsson
Margrét Sigrún Þórólfsdóttir
Trausti Björgvinsson, gjaldkeri