Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Véfréttin Jón Norðfjörð
Föstudagur 29. apríl 2022 kl. 19:03

Véfréttin Jón Norðfjörð

Jónína Magnúsdóttir skipar 1. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ.
Laufey Erlendsdóttir skipar 2. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ.
Jón Ragnar Ástþórsson skipar 3. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ.
Haraldur Helgason skipar 4. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ.


Véfréttin Jón Norðfjörð ruddist fram á ritvöllinn með kosningaspá fyrir Suðurnesjabæ. Ekki er gott að vita hversu mikil eftirspurn var eftir spánni en mögulega er hún sett fram með einhverjum duldum ásetningi. Spáin virðist allavegana ekki vera neitt sérstaklega vel ígrunduð. Hann talar um okkur efstu fjögur hjá Bæjarlistanum sem óánægða Sjálfstæðismenn og klofningsframboð en staðreyndin er sú að flest höfum við boðið okkur fram á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra sem óháð. Einungis eitt okkur sóttist eftir því að vera á þeirra lista í komandi kosningum. Einnig gerir hann okkur upp eitthvað ósætti við Magnús á D-lista og dylgjar um það að það sé ástæða þessa nýja framboðs þegar raunin er sú að við teljum það einfaldlega bestu leiðina í framboði til sveitarstjórnarkosninga að hafa þau ótengd stjórnmálaflokkum á landsvísu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einnig týnir Jón til einhverja tölfræði eftir hentisemi um búsetu frambjóðanda sem að ætti ekki að skipta neinu máli að okkar mati. Allir frambjóðendur Bæjarlistans eru búsettir í Suðurnesjabæ og „eitt bæjarfélag“ er eitt af okkar slagorðum. Tölfræðigreiningin er ekki ítarlegri en svo að hún fjallar bara um ákveðna lista en ekki aðra sem mögulega standa honum nær. Greining „spámannsins“ er ekki gleggri en svo að hann fer einnig að tala um hvernig framboði var stillt upp á síðasta kjörtímabili sem bauð ekki fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og talar um að það sé í meirihlutasamstarfi. 

Það er oft sagt að enginn verður spámaður í sínu föðurlandi og þar sem að spár Jóns er byggðar á dylgjum, rangfærslum og gloppóttri tölfræði er líklegt að það muni eiga vel við í þessu tilfelli.

Við í framboði Bæjarlistans erum jákvæðir, metnaðarfullir og dugmiklir einstaklingar. Það örlar ekki á meintri óánægju innan okkar framboðs heldur er mikill vilji til að gera vel fyrir Suðurnesjabæ óháð lögheimili. Á Bæjarlistanum er fólk sem getur akkúrat gert það sem greinarhöfundur óskar í lok greinar sinnar og meira til – en eitt getum við verið sammála Jóni um, það er okkar von að í bæjarstjórn veljist fólk sem kann og getur stjórnað bæjarfélaginu.

Það getum við í framboði O-listans!

Við í Bæjarlistanum í Suðurnesjabæ stöndum fyrir faglega forystu og hugrekki í ákvarðanatöku.

X við O í kosningum 14. maí 2022.