Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Veðurbugun
Föstudagur 29. júní 2018 kl. 10:00

Veðurbugun

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Vitiði...þetta er orðið gott. Eins mikill keppnismaður og ég er þá finnst mér algjörlega nóg komið af úrkomumetum þetta „sumarið“.  Ég vil að við sláum annars konar met.

Og það þarf meira að segja mjög lítið til að gera mig hamingjusama þegar kemur að veðrinu. Bara oggoponsulitla sólarglennu við og við, þó ekki sé nema einhvern smá hluta dagsins, kannski bara – segjum – einu sinni í viku? Ég yrði alsæl. Að hitinn fari í tveggja stafa tölu, bara einhvern tímann yfir hásumarið. Er það eitthvað?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við búum á Íslandi og allt það, en kommon, þetta er orðið ómannúðlegt. Ég er ekki enn búin að kaupa sumarblómin – þau myndu bara drukkna. Trampolínið er í stöðugri fokhættu og grasið vex endalaust því það er alltaf of blautt til þess að það sé hægt að slá. Íslenska sumarið er það sem heldur okkur hér á þessu, allt að því óbyggilega (en auðvitað undursamlega), landi. Fallegar, bjartar sumarnætur þar sem við getum setið úti (undir ullarteppi) til morguns, dásamlegar útilegur þar sem við grillum (í kraftgalla og föðurlandi) og krakkar sem getið leikið sér endalaust úti (á peysunni) fram á kvöld. Þetta er það sem gerir Ísland að Íslandi og við elskum endalaust. Takið eftir því að ég er bara að biðja um teppi, föðurland og peysur – mér dettur ekki í hug að fara fram á hlýrabol, bikiní eða stuttbuxur.

En meira að segja þetta virðist afar fjarlægur draumur þegar langtímaveðurspáin er skoðuð. Þegar þetta er skrifað, þann 26. júní, er ekki sól í kortunum fyrir Keflavík eins langt og spáin nær, eða til 10. júlí. Í a.m.k. rúman hálfan mánuð í viðbót mun ekki sjást til sólar. Þetta er svakalegt.

Við sem ætluðum að njóta þess að vera heima þetta sumar og hafa það huggulegt á pallinum þurfum greinilega að fara að endurskoða okkar áform og finna önnur verkefni.  Allt í einu er stóra, og auðvitað mjög svo nauðsynlega, tiltektin í bílskúrnum farin að hljóma ótrúlega spennandi – maður getur alla vega verið inni við það.

Þessi ömurlega vætutíð breytir jafnvel Pollýönnu í tuðandi „virka í athugasemdum“ og ég held að við séum flest öll svona almennt að bugast. Fótboltinn bjargar samt því sem bjargað verður og strákarnir okkar eru auðvitað sólskinsdrengirnir okkar allra. Ég segi það hér (og tek það fram að blaðið fer í prentun áður en úrslit liggja fyrir) að ef við vinnum Króatíu þá er mér sama þótt það rigni hvern dag fram í september.

Og ef allt fer á versta veg og við töpum og það rignir samt hvern dag fram í september … nú þá fer ég bara að taka til í bílskúrnum.

Áfram Ísland alla leið!