Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vaxtarsamningur Suðurnesja
Sunnudagur 29. maí 2011 kl. 14:14

Vaxtarsamningur Suðurnesja


Á síðasta ári gerðu sveitarfélögin á Suðurnesjum og Iðnaðarráðuneytið með sér vaxtarsamning. Markmiðið með samningnum er að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.

Verkefnastjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja úthlutaði í lok síðasta árs 25,3 millj. kr. til 15 verkefna á svæðinu. Verkefnin sem hlutu styrk voru af ýmsum toga, í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, fatahönnun, hugbúnaðarverkefni, rannsóknarverkefni og fleiri verkefni sem skoða má á heimasíðu Vaxtarsamnings. Gert er ráð fyrir að allt að 50 til 60 ný störf skapist á tímabilinu sem tekur að styrkja stoðir verkefnanna sem fengu styrk.


Ferðaþjónustan
Verkefnastjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja hvetur ferðaþjónustuna á Suðurnesjum til að vinna saman að því að byggja upp ferðaþjónustuklasa sem mundi hafa það hlutverk að kynna Suðurnes og kosti svæðisins í ferðamennsku, menningartengdri ferðaþjónustu og afþreyingu hvers konar. Með þeim hætti hefði Vaxtarsamningur Suðurnesja möguleika á að koma að uppbyggingu og þróun klasans með stuðningi. Í Grindavík er klasi ferðaþjónustufyrirtækja og hefur verið til í nokkurn tíma, Grindavík Experience. Fyrirtækin í klasanum eru ólík hvað þjónustu við ferðamenn snertir, en sjá að sameiginlega geta þau gert mjög margt í markaðssetningu svæðisins með sameiginlegu átaki. Stjórn Vaxtarsamnings vill sjá klasasamstarf myndast á öðrum svæðum Vaxtarsamnings í ferðaþjónustu og koma að slíku samstarfi með stuðningi, líkt og gert var með Grindavík Experience. Til framtíðar litið eru hagsmunir ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum þeir að einn stór og öflugur klasi í geiranum verði til og kæmi þá klasinn sterkur að því að kynna svæðið í heild sinni. Þannig legðist ferðaþjónustan á eitt að fá ferðafólk inn á svæðið sem nyti síðan þjónustu fyrirtækja á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Næsta úthlutun
Verkefnastjórn Vaxtarsamnings hefur ákveðið að næsta úthlutun fari fram í október nk. Nú hafa fyrirtæki sem hafa hugsað sér að sækja um styrk, tíma til að undirbúa umsókn sína vel. Áherslan er lögð á uppbyggingu klasa, þriggja fyrirtækja eða fleiri, verkefni þar sem byggt er á styrkleikum og tækifærum svæðisins og framgang rannsókna og þróunar á sviði, flugs og öryggis, heilsu, tækni og orku, sjávarútvegs, matvæla og ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að umsækjendur fylgi reglum Vaxtarsamnings í uppbyggingu og þróun klasasamstarfs, nýsköpun, rannsóknum og samstarfi fyrirtækja og háskóla.

Vaxtarsamningur verður kynntur með auglýstum fundum í september jafnframt er hægt að nálgast upplýsingar á heimasíðu Vaxtarsamnings http://vaxtarsamningur.sss.is Auk þess sem undirrituð veitir fúslega aðstoð og upplýsingar í síma 420-3288 og á skrifstofu SSS, Iðavöllum 12, Reykjanesbæ.

Björk Guðjónsdóttir, verkefnastjóri.