Vaxtarsamningur kominn til Suðurnesja
Vaxtarsamningar milli sveitarfélaga og ríkisins hafa verið þekktir í flestum landshlutum um nokkurt skeið. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa nú undirritað slíkan samning við ríkisvaldið. Markmið samningsins er, að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.
Áhersla verður lögð á uppbyggingu á sviðum sem svæðið telur til styrkleika sinna. Uppbygging klasa, þ.e.a.s. þrír eða fleiri samstarfsaðilar mynda klasa m.a. á sviði flugs og öryggis, heilsu, tækni og orku, sjávarútvegs og matvæla eða menningar og ferðaþjónustu. Samstarfsaðilar þurfa allir að hafa hag af því að árangur náist með samstarfinu.
Með þessum samningi skapast tækifæri fyrir þá aðila á Suðurnesjum sem hafa hugmyndir að nýsköpunarverkefni, til að mynda klasa um þróun verkefnisins.
Þar sem vaxtarsamningurinn er nýtilkominn hér á Suðurnesjum er hugmyndafræðin á bak við uppbyggingu klasa því ekki vel þekkt hér á svæðinu. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum mun halda fundi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum, þar sem hugmyndafræðin verður kynnt. Ég hvet áhugasama og hugsanlega þátttakendur til að koma á slíkan kynningarfund. Fundirnir verða auglýstir sérstaklega. Eftir að kynningarfundir hafa verið haldnir verður auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum.
Það er afar mikilvægt fyrir atvinnulífið hér á Suðurnesjum að vel takist til með þetta verkefni og að þeir klasar sem hljóta styrki fái ný tækifæri, aukinn slagkraft í samkeppninni og eflist og styrkist. Með því móti uppfyllum við eitt af markmiðum vaxtarsamningsins sem er að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vöru og þjónustu.
Upplýsingar veitir Björk Guðjónsdóttir hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sími 420-3288.
Björk Guðjónsdóttir
verkefnastjóri vaxtarsamnings og menningarsamnings.