Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Varnarliðssvæðið & hið nýja hlutafélag
Fimmtudagur 19. október 2006 kl. 10:14

Varnarliðssvæðið & hið nýja hlutafélag

Í áratugi hafa byggðir á Suðurnesjum staðið utan byggðastefnu stjórnvalda.  Stjórnvöld hafa kosið að líta svo á að vera varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi ein og sér verið nógu stór biti í atvinnulegu tilliti fyrir svæðið.  Fyrir þessar sakir hafa Suðurnesin verið utan starfa og stefnumiða stjórnvalda í atvinnumálum um ærið langt skeið. Suðurnesjamönnum hefur lærst að þróa sín bæjarsamfélög án mikils stuðnings stjórnvalda. Hefur áræðni, dugnaður og hugmyndaauðgi verið góður fylgifiskur undir þessum kringumstæðum.  Nú er svo komið að varnarliðið hefur kvatt og við blasa nýir tímar.  Aðilar á svæðinu hafa ekki setið auðum höndum heldur lagt í mikla vinnu við að bregðast við breyttum tímum og leitað leiða við að skapa ný tækifæri við þróun svæðisins til framtíðar.

Verkefnahópur á vegum sveitarfélaga á Reykjanesi

Starfandi hefur verið verkefnahópur undir forystu Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Mikil vinna hefur farið fram í þessum hópi bæði við að kortleggja mannvirki og búnað á varnarsvæðinu sem og að safna gögnum um reynslu og fordæmisgildi annarra þjóða við svipaðar aðstæður.  Ennfremur hefur hópurinn lagt í vinnu við að skoða tækifæri til framtíðar með heildarhagsmuni svæðisins og landsins í huga.  Fram hefur komið að til standi að stofna félag af hálfu ríkisstjórnarinnar sem mun hafa umsjón með þessu verkefni utan flugrekstrarsvæðisins.  Umrætt fyrirtæki mun taka yfir eignir og búnað sem ekki verður úthlutað til Flugmálastjórnar eða Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir, er reynsla og fordæmisgildi annarra þjóða sú, að sveitarfélög og fyrirtæki á viðkomandi svæði séu best til þess fallin að sinna slíkri stefnumótun.  Hið nýja félag mun bera þá skyldu að starfa náið með fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum.

Tækifæri - ekki vandamál

Margar hugmyndir hafa verið nefndar er koma til greina um nýtingu svæðisins. Frambjóðendur til prófkjörs fyrir komandi Alþingiskosningar skjóta fram nýjum hugmyndum og reyna að fella pólitískar keilur í leiðinni. Ég tel það ekki vera mitt hlutverk, hins vegar vil ég tryggja að heimamenn, bæði sveitarfélög á Suðurnesjum og fyrirtæki í heimabyggð, verði ráðandi við stefnumótun og framþróun á svæðinu.

Þakka þeim sem lásu

Gunnar Örn Örlygsson
Alþm



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024