Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Varað við ljósabekkjanotkun fermingarbarna
Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 14:15

Varað við ljósabekkjanotkun fermingarbarna

Um þessar mundir er verið að senda foreldrum og forráðamönnum fermingarbarna póstkort þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Skilaboðin á kortinu eru frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu og Landlæknisembættinu. Þetta er fjórða árið sem þessir aðilar standa saman að fræðsluherferð undir slagorðinu “Hættan er ljós”.

Á póstkortinu er vakin athygli á því að börn og unglingar séu næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól. Bent er á að tíðni húðkrabbameins hafi aukist mikið á síðustu árum, einkum tíðni svonefndra sortuæxla, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins og algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum frá 15 til 34 ára. Foreldrar og forráðamenn fermingarbarna eru hvattir til að hafa í huga tilmæli alþjóðastofnana um að börn og unglingar fari ekki í ljósabekki.

Í samvinnu við Biskupsstofu hefur verið leitað til presta landsins um að leggja málefninu lið.

Í kjölfar fræðsluherferðanna síðustu ár hefur dregið úr ljósabekkjanotkun ungs fólks og nokkrar sveitarstjórnir hafa hætt að bjóða upp á sólböð í ljósabekkjum í íþróttamannvirkjum sínum. Með herferðinni nú er stefnt að því að draga enn frekar úr ljósabekkjanotkuninni með því að minna á hættuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast að meðaltali 55 manns á ári með sortuæxli í húð, 55 með önnur húðæxli og um 210 manns með svonefnd grunnfrumuæxli í húð. Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum.

Frétt frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu og Landlæknisembættinu,
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024