Var þetta nauðsynlegt? Má ekki bíða aðeins?
Mikilvægt að viðurkenna og horfast í augu við vandann
Margar vel reyndar aðferðir til að leysa vandamál eða breyta tilteknu ástandi byggjast á því grundvallaratriði að mikilvægt sé í upphafi að skilgreina og viðurkenna að vandamál sé til staðar. Þetta á við t.d. hjá þeim sem vilja hætta að drekka, dópa, reykja, grenna sig o.s.frv. Fyrsta skrefið er að horfast í augu við vandamálið, hversu sárt eða erfitt sem það kann að reynast, og hefja svo markvissar aðgerðir til þess að leysa það. Þá reynir á trúna á að það breytta ástand sem stefnt er að sé betra en núverandi ástand og viljastyrkur, seigla og úthald geta gert útslagið hvort takist að breyta eður ei. Fyrir marga er samt auðveldara að taka aftur upp fyrra mynstur en þá fer líka allt í sama farið og ekkert breytist.
Ekki pólitík og ekki verið að plata
Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er graf alvarleg. Sú staðreynd hefur legið fyrir um nokkurt skeið. Samt eru ótrúlega margir sem halda ennþá að þetta sé bara pólitískur skollaleikur með það að markmiði að láta stöðuna líta verr út en hún raunverulega er. Það er fjarri lagi. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er einhuga og hefur að mestu verið samstíga í stærstu aðgerðum og ákvörðunum. Það segir allt sem segja þarf. Samt hitti ég fólk af og til sem heldur hinu gagnstæða fram og trúir því að þetta sé allt í plati. „Var nú nauðsynlegt að hækka útsvarið? Var nauðsynlegt að hækka fasteignaskattinn? Var nauðsynlegt að draga saman og hagræða í rekstri? Var nú nauðsynlegt að segja upp fastri yfirvinnu? Var nú nauðsynlegt að segja upp föstum aksturstyrkjum? Var nauðsynlegt að fækka fagsviðum? Var nú nauðsynlegt að segja upp öllum framkvæmdastjórunum? Var nú nauðsynlegt að gera samning við innanríkisráðuneytið? Var nú nauðsynlegt að …….“ Öllum spurningum í þessum dúr er bara hægt að svara á einn veg; „Já, það var bráðnauðsynlegt að taka þessar ákvarðanir þótt erfiðar væru.“
Svo eru enn aðrir sem vilja helst bíða og sjá. „Eigum við ekki að bíða og sjá hvort þetta lagist? Eigum við ekki að bíða og sjá hvort takist að fjölga betur launuðum störfum og þannig hækka skatttekjur? Eigum við ekki að fara hægar í sakirnar, gera þetta í smærri skrefum og á lengri tíma? Er þetta ekki bara leikur að tölum?“ Öllum spurningum í þessum dúr er bara hægt að svara á einn veg; „Nei, það er ekki hægt að bíða lengur. Það er komið að ögurstundu og nú þarf að grípa til aðgerða.“
Vantar jákvæðari umræðu
Eitt sjónarmiðið sem ég hef einnig orðið mikið var við er að ekki sé rétt að vera með allar þessar neikvæðu fréttir. „Nú er komið nóg af neikvæðni og slæmum fréttum. Nú vantar okkur jákvæðari umræðu til þess að bæta ímyndina,“ segja margir. Ég er á vissan hátt sammála en tel samt mikilvægt að við horfumst í augu við vandamálið, viðurkennum það og berum virðingu fyrir verkefninu. Við megum ekki gera lítið úr því t.d. með því að segja að hið lögbundna 150% skuldaviðmið sé bara tilkomið af því að einhverjum þingmönnum datt það í hug heldur verðum við að gera okkur grein fyrir að skuldir Reykjanesbæjar eru allt of háar og þær þarf að greiða niður. Það gerum við ekki nema með því að eiga rekstrarafgang á hverju ári sem nota má til þess að greiða niður skuldir og því þurfum við að halda gríðarlega vel á spilunum á næstu 8 árum að minnsta kosti. Allir sem halda öðru fram eru í afneitun og á villigötum.
Kjartan Már Kjartansson
bæjarstjóri Reykjanesbæjar