Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vantar hjálp hjá hverjum sem hana gæti veitt
Föstudagur 6. maí 2011 kl. 18:35

Vantar hjálp hjá hverjum sem hana gæti veitt

Dagbjört Rós Halldórsdóttir skrifar um forræðismál sitt í Bandaríkjunum

Ég gifti mig bandarískum manni árið 2004 og fluttist með honum til Þýskalands. Ég átti fyrir son sem fór með mér og eignaðist síðan dóttur í janúar 2006 sem var skírð á Íslandi og fékk nafnið Caitlin Vicktoria Grundfjörð.

Sambúðin gekk hálf brösuglega en alltaf var eitthvað sem hélt mér í þessu hjónabandi. Við höfðum talað um og hann hafði sagt mér að hann hefði sótt um að klára herþjónustu sína á Íslandi eftir tímann í Þýskalandi. Síðan kemur skipun um að hann eigi að fara til Bandaríkjanna og vera þar um tíma. Hann hélt áfram að tala um að svo færum við til Íslands og svo fór að ég fór með honum til Bandaríkjanna með börnin. Sambúðin í Þýskalandi gekk vægast sagt brösuglega en ég sannfærði sjálfa mig með hjálp mannsins að það myndi allt lagast en svo var nú ekki. Um leið og ég var komin til Bandaríkjanna komst ég ekki heim aftur nema skilja dóttur mína eftir. Og pabbi hennar sannfærði mig um að ef ég færi án hennar sæi ég hana aldrei aftur og að hann myndi koma í veg fyrir eins og hann gæti að ég gæti farið. Hann neitaði að skrifa undir pappíra sem hefðu gert mér kleift að vera löglega í landinu. Hann leyfði mér að fara eina ferð til að sækja son minn til Íslands eftir sumardvöl hjá föður sínum. Ég fór ein yfir helgi. Caitlin fékk ekki að fara með.

Ég gerði allt sem ég gat til að koma mér út úr þessum vandræðum, en fljótlega var ég orðin ólögleg þarna úti og komin í mikil vandræði. En ekki gat ég farið og skilið barnið mitt eftir. Það gekk á ýmsu og endaði með því að ég varð að kalla til lögreglu því ég óttaðist um líf mitt og barnanna minna. Í framhaldi af því komst upp um ólöglega stöðu mína í Bandaríkjunum og ég var handtekin og send heim. Án dóttur minnar.

Við tók mikil barátta að reyna að komast til hennar aftur og eftir 6 mánuði fékk ég loks lögfræðing mér til hjálpar og sendiráð Bandaríkjanna gaf út vegabréfsáritun fyrir mig til að geta rekið mál úti í Bandaríkjunum. Fyrrverandi maðurinn minn hafði sagt að ég fengi aldrei að sjá dóttur mína aftur og neitaði að sækja um skilnað svo ég varð að sækja um forræði og skilnað sjálf.

Málaferlin þarna úti stóðu í rúmlega ár og svo tók við löng bið sem endaði á að taka eitt ár í viðbót. Þá kom úrskurður um sameiginlegt forræði og skiptingu á hvar dóttir mín ætti að vera hverju sinni. Faðir hennar sinnti þessum úrskurði ekkert og meðan við stóðum í ströngu við að fá barnið í hendurnar eins og úrskurðurinn mælti fyrir, fékk hann málið tekið upp að nýju í öðru fylki sem hann hafði flust til meðan á biðinni eftir úrskurðinum stóð.

Þá urðum við að byrja upp á nýtt. Það hefur gengið á ýmsu og faðir dóttur minnar gert allt sem hann getur til að hindra umgengni við barnið. Hann hefur brotið gegn mörgum dómsúrskurðum um umgengni og þegar við höfum farið út til að hitta Caitlin hefur það verið mikið vesen og ég ekki fengið neinn raunverulegan tíma með henni.

Síðan var fenginn óháður lögfræðingur til að starfa í þágu dóttur minnar og síðan þá hefur umgengni gengið betur og dóttir mín fengið meiri tíma með mér og syni mínum. Það hefur aldrei verið nein hræðsla í henni að umgangast mig þrátt fyrir að henni hafi verið sagt að ég ætli að ræna henni og ég hef margsinnis verið ásökuð um það af föður hennar. Hins vegar kæmi það aldrei til greina af minni hálfu. Ég vil einfaldlega að Caitlin fái að kynnast báðum foreldrum sínum og fjölskyldum.

Nú eru réttarhöldin í maí og ég þarf að fara út til að vera við þau og svo að hitta Caitlin að sjálfsögðu. Þetta er búið að kosta miklar fjárupphæðir í lögfræðikostnað, ferðir og annað sem fylgir svona málaferlum. Það hafa verið safnanir í gangi sem ég er mjög þakklát fyrir og eins allan stuðninginn sem fólk hefur veitt mér á margan hátt.

En því miður er fjárhagsstaðan orðin slæm núna og því leita ég að hjálp hjá hverjum sem hana gæti veitt. Ég fór í öll þau fyrirtæki sem mér datt í hug að gætu veitt mér aðstoð og vona að einhverjir þar sjái sér fært um að hjálpa mér.
Einnig er til blogg um það sem gekk á í fyrri réttarhöldum en eftir að úskurður kom og ég hélt að þessu væri lokið hef ég ekki skrifað meir á það. Ég einfaldlega treysti mér ekki til þess.

http://dagbjort-ros.bloggar.is/
Öll hjálp er vel þegin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

* REIKNINGSNÚMER 0542-14-605040
* KENNITALA 160982-4709

Dagbjört Rós Halldórsdóttir