Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 15. janúar 2003 kl. 15:16

Valþór svarar: Kæri Ellert!

Það er ekki ætlun mín að gera þessi greinarskrif okkar í milli að föstum þætti í blaðinu en af því þú spyrð þá verður vart hjá því komist að svara. Þú spyrð hvernig það megi vera að tillaga hluta kjörnefndar hafi verið samþykkt af fulltrúum í kjördæmisráði á fundinum í Stapa þar sem 158 fulltrúar voru mættir og segir síðan að því verði ekki haldið fram með rökum að fulltrúar í kjördæmisráði hafi ekki verið full upplýstir um málavexti þegar þeir felldu breytingartillöguna sem kom frá mér. Ég vil halda því gagnstæða fram þ.e. að fulltrúar þeir sem á Kjördæmisfundinum mættu voru hreint ekki nógu upplýstir um það vinnuferli og þau alvarlegu brot á öllum reglum sem áttu sér stað í kjörnefndinni og nægir þar að nefna t.d. eftirfarandi atriði: Að kjörnefndin hafi vísvitandi mismunað frambjóðendum þar sem sumir frambjóðendanna áttu sæti í nefndinni og tóku þar þátt í að setja reglurnar á meðan aðrir frambjóðendur fengu ekkert um þær að vita og að fleiri en einn kjörnefndarmanna hafi gefið kost á sér til setu á listanum eftir að hafa hafið störf í nefndinni, tekið þátt í smíði á reglunum og jafnvel greitt atkvæði um aðra frambjóðendur sem óskuðu eftir sæti og það jafnvel án þess að segja af sér .
Fleira er hægt að nefna þessu til stuðnings eins og t.d. það að allir kjörnefndarmenn voru bundnir trúnaði og gátu því ekki rætt þessi mál fyrir fundinn í Stapa þar sem þú reyndar fyrstur manna braust þann trúnað sem þú sjálfur hafðir nokkrum stundum áður ítrekað við okkur hin í nefndinni að við yrðum að halda til dauðadags á fundi í Valhöll, en þú vitnaðir ítrekað í og lést lesa úr fundargerðum og hafðir eftir ummæli einstakra kjörnefndarmanna á Stapa fundinum. Vegna þessa trúnaðar var mönnum gert það ómögulegt að greina frá og fjalla um það sem fram fór í nefndinni og þær ákvarðanir og vinnuaðferðir sem þar áttu sér stað og því ekki á þeim tíma hægt að upplýsa þá er kjördæmaráðs fundinn sóttu um þessi vinnubrögð.
Hvað varðar það að meirihluti þeirra 158 manna sem sátu fundinn hafi samþykkt tillögu nefndarinnar vil ég benda þér á að sú tillagan hélt mjög naumlega þar sem aðeins hefði þurft að flytja til 6 atkvæði í kosningu um 3 sætið til að ná þeim árangri sem tillaga mín gerði ráð fyrir en eins og þú veist þá fékk Guðjón Hjörleifsson 82 atkvæði en Kjartan Ólafsson 72 atkvæði, af því leiðir að hefði Kjartan náð 6 atkvæðum til sín frá Guðjóni hefði Guðjón fallið og þá var Kristján einn í framboði til 4 sætis samkv. framkomnum tillögum.
Að lokum kæri Ellert, þá er ég þér ekki sammála um að hér sé verið að “hengja bakara fyrir smið” þar sem kjörnefnarmenn hljóta að þurfa að standa ábyrgir fyrir gerðum sínum og að þær gerðir þurfi að þola dagsljós, en spyrja má hvort kjörnefndin hafi ekki gert einmitt þetta og hengt bakara fyrir smið þegar Kristjáni var kastað af listanum og ekkert við hann rætt áður. Um leið og ég óska þér gleðilegs árs þá vona ég að þér farnist betur en í kjörnefndinni í þeim ábyrgðarmiklu störfum sem þú ert hlaðinn fyrir hönd flokksins og samfélagsins í framtíðinni.

Valþór S. Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024