Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Valnefnd velur í mótsögn við vilja sóknarbarna
Þriðjudagur 18. ágúst 2009 kl. 20:12

Valnefnd velur í mótsögn við vilja sóknarbarna


Ég er ekki lítið hneyksluð á vali valnefndar í Útskálaprestakalli en í gær 17/08/09 valdi hún sr. Sigurð Grétar Sigurðsson sóknarprest á Hvammstanga til að þjóna prestakallinu. Ég hef ekkert á móti sr. Sigurði og tel að eflaust sé hann mjög frambærilegur. Ég þekki það bara ekki. En að það sé gengið framhjá sr. Lilju Kristínu sem hefur gengt afleysingum í prestakallinu við góðan orðstýr í samanlagt 16 mánuði er hreint út sagt hneyksli.

Þeim sóknarbörnum er láta sig málið varða þykir þetta mjög leitt og finnst ótrúlegt að valnefndin hafi ekki farið að vilja meirihluta fólks í sóknunum. Það var augljóst hverjum sem vildi að sr. Lilja Kristín hafði ótrúlegan stuðning innan prestakallssins. En hvernig gat þetta þá gerst? Hefur sr. Sigurður meiri menntun eða starfsreynslu? Nei, þau eru að mér vitandi með sömu menntun og svipaðan starfsaldur. Hvernig stendur á því að valnefndin velur einhvern sem hún þekkir ekki neitt fram yfir manneskju sem hún hefur haft mjög góða reynslu af? Þetta er mér ráðgáta.

Nú er það svo að Biskup Íslands hefur síðasta orðið í þessum efnum og þó að hingað til hafi hann ekki sett sig upp á móti valnefndum finnst mér að breytingar sé þörf. Þarf Biskup ekki að fara eftir jafnréttislögum sem segja: „Jafnréttislöggjöf gerir ráð fyrir því að það kynið sem færri eru í viðkomandi starfsstétt skuli almennt ganga fyrir ef umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari umsækjanda af gagnstæðu kyni.“ Karlprestar eru u.þ.b. 100 en kvenprestar eru 30. Í umsókninni eru konur hvattar til að sækja og þær gerðu það svo sannarlega. Af 10 umsækjundum voru 8 konur og hefur heyrst að sr. Sigurður hafi verið eini karlinn sem mætti til viðtals. Mér finnst klárlega að brotið sé á jafnréttislögum og það er óskandi að Biskup hafi bein í nefinu til að standa með konum og leiðrétta þetta órétti.

Biskup þarf að vita að það er ekki sátt um þetta í prestakallinu og ef friður á að nást þarf að fara að vilja fólksins og skipa sr. Lilju Kristínu Þorsteinsdóttur sem sóknarprest í Útskálasókn.

Alda Karlsdóttir

Ljósmyndir: Hvalsneskirkja og Alda Karlsdóttir, greinarhöfundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024